Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) leggur til að leyft verði að veiða tífalt meira af kolmunna á næsta ári en í ár. Verði sömu nýtingaráætlun fylgt á árinu 2012 og á þessu ári leggur ICES til að leyft verði að veiða 391 þúsund tonn. Ráðgjöfin fyrir þetta ár hljóðaði upp á 40.100 tonn
Hins vegar leggur ICES til 15% minni veiði úr norsk-íslenska síldarstofninum en á þessu ári. Ef áfram verður stuðst við þá samninga sem gerðir hafa verið um nýtingaráætlun verður heimilt að veiða 833 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld árið 2012 í stað 988 þúsund tonna á þessu ári.
Á vef LÍÚ kemur fram að fjallað verði um ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins og veiðar úr stofnunum á fundum strandríkjanna í næsta mánuði.