Seachill, dótturfyrirtæki Icelandic Group í Bretlandi, er að hefja tveggja vikna auglýsingaherferð í sjónvarpi og á vefnum til þess að vekja athygli á ferskum fiskréttum sínum sem ganga undir vöruheitinu Saucy Fish. Herferðin mun kosta 1,5 milljón sterlingspunda eða jafnvirði um 270 milljóna íslenskra króna.
Kynningin gengur út á að sýna hve auðvelt sé að matreiða réttina, en um er að ræða ferska fiskbita með sósu sem tilbúnir eru til eldunar. Sjónvarpsauglýsingarnar, sem byggðar eru á teiknimyndum, verða sýndar í sex daga og er lögð áhersla á forsoðin laxaflök í sósu.
Með auglýsingaherferðinni er einkum reynt að fá ungt fólk til þess að prófa vöruna í fyrsta sinn.
Saucy Fish vörurnar eru mjög þekktar og útbreiddar á breskum smásölumarkaði. Þær hafa ennfremur verið markaðssettar í Singapore og nú er verið að fara í útrás með þær til Írlands og Noregs.
Greint er frá þessu á vefnum undercurrentnews.com