Icelandic Group hefur fest kaup á belgíska fiskvinnslufyrirtækinu Gadus. Fyrirtækið sérhæfir sig í vinnslu og sölu á ferskum og kældum sjávarafurðum, einkum laxi og þorski, en um þriðjungur af hráefni félagsins kemur frá Íslandi. Meðal viðskiptavina félagsins eru nokkrar af helstu smásölukeðjum í Belgíu en Gadus er annað stærsta  fyrirtækið í sölu á ferskum fiskafurðum í landinu. Ársvelta Gadus nemur um rúmum 11 milljörðum króna.

Lárus Ásgeirsson, forstjóri Icelandic Group: „Kaupin á Gadus eru í samræmi við þær áherslur sem við höfum lagt upp með í rekstri Icelandic Group til framtíðar. Gadus hefur sterka stöðu fyrir kældar og ferskar sjávarafurðir á sínum heimamarkaði og rekstur fyrirtækisins hefur verið stöðugur og góður í mörg ár. Með kaupunum erum við að efla þann hluta rekstrar Icelandic Group sem snýr að vinnslu og sölu á ferskum og kældum sjávarafurðum í samstarfi við smásölukeðjur, en sá þáttur starfseminnar hefur gengið einna best á undanförnum árum. Við sjáum mikla möguleika til að efla Gadus enn frekar og ná fram samlegð með öðrum félögum innan samstæðunnar.“

Gadus var stofnað árið 1990 og hefur frá upphafi lagt áherslu á að þjónusta smásölumarkaðinn. Markaðsstaða fyrirtækisins er sterk en fyrirtækið, sem er staðsett í hafnarbænum Nieuwpoort, er með dreifikerfi um alla Belgíu, mjög vel tækjum búið og leggur áherslu á umhverfisvottaðar afurðir. Meðal viðskiptavina eru helstu smásölukeðjur í Evrópu og hefur rekstur félagsins gengið vel og velta aukist jafnt og þétt undanfarin ár.