Oceanpath Limited er öflugasta fyrirtækið á írska ferskfiskmarkaðnum og hefur vaxið hröðum skrefum á síðustu árum. Iceland Seafood International (ISI) hefur náð samkomulagi um kaup á 67 prósenta hlut í fyrirtækinu og haslar sér þar með völl á Írlandi ásamt því að styrkja enn frekar stöðu sína í Evrópu.

Í tilkynningu frá Iceland Seafood segir að kaupverðið komi til með að verða á bilinu 12,4 til 13,4 milljónir evra, sem jafngildir 1.525 til 1.648 milljónum króna. Endanlegt verð ræðst af því hver arðsemi írska fyrirtækisins verður á yfirstandandi fjárhagsári, sem lýkur 30. apríl, og því næsta sem stendur til 30. apríl 2019.

Formlega var gengið frá kaupunum á þriðjudaginn var, 13. apríl.

Oceanpath er fjölskyldufyrirtæki sem starfrækir tvær verksmiðjur á Írlandi. Önnur heitir Oceanpath og þar er unnar ferskar og frosnar sjávarafurðir. Hin heitir Dunn‘s of Dublin, hefur verið starfrækt frá 1822 og er þekkt fyrir reyktan lax.

„Kaupin á Oceanpath eru framhald á þeirri stefnu ISI að efla virðisaukandi starfsemi sína í Evrópu,“ segir Helgi Anton Eiríksson, framkvæmdastjóri ISI.

Núverandi aðaleigendur fyrirtækisins, Alan Ecok og synir hans, Ken og Trevor, verða áfram í lykilstöðum sínum.