Síðastliðinn mánudag kom færeyska skipið Eystnes til Neskaupstaðar með alls 16 íbúðir frá Eistlandi.

Síldarvinnslan hf. og Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað standa að þessum flutningi með það fyrir augum að örva íbúðabyggingar í Neskaupstað.

„Mikill húsnæðisskortur hefur verið í bænum og vildu fyrirtækin leggja sín lóð á vogarskálina ef það yrði til þess að íbúðabyggingar hæfust,“ segir í frétt á vef Síldarvinnslunnar.

Sextán íbúðir í tveimur húsum

„Rætt var við nokkur byggingafyrirtæki og á endanum varð úr að efnt var til samstarfs við fyrirtækið Hrafnshól sem hafði kynnt fyrir Síldarvinnslunni og SÚN spennandi lausn. Á endanum var gerður samningur um byggingu 16 íbúða í tveimur húsum í svonefndri Vík og var samningurinn undirritaður í júlímánuði sl. Hér er um að ræða svonefnd módulhús sem hafa þann ótvíræða kost að byggingartími er skammur. Að samningnum kom einnig leigufélagið Brák sem kaupir fjórar af íbúðunum 16. Hér er rétt að geta þess að mikið líf hefur færst í húsbyggingar í Neskaupstað síðustu mánuði og nú eru hátt í 30 íbúðir í byggingu í bænum að umræddum 16 íbúðum meðtöldum.“

Sögulegt skref

„Með þessum módulhúsum er verið að stíga athyglisvert skref í sögu húsbygginga hér á landi en þau eiga fáa sína líka hvað varðar gæði á forsmíðuðum húsum,“ segir Síldarvinnslan. „Íbúðunum hefur verið sýndur mikill áhugi og er fyrirhugaður sérstakur kynningarfundur fyrir alla áhugasama.“

Nánar má lesa um húsin á vef Síldarvinnslunnar.