Þessa dagana er í mörgu að snúast hjá Bergi-Hugin, dótturfélagi Síldarvinnslunnar í Vestmannaeyjum, og koma fjögur skip þar við sögu.

Frá því segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar að hin nýja Vestmannaey hefur verið á Akureyri þar sem verið er að ganga frá millidekki skipsins og er gert ráð fyrir að því verki verði lokið í næstu viku. Þá mun skipið þegar halda til veiða.

Í Aukra í Noregi er verið að ljúka við prófanir á búnaði nýrrar Bergeyjar og mun skipið væntanlega verða afhent Bergi-Hugin um miðja næstu viku. Þegar heim verður komið mun Bergey halda til Akureyrar þar sem Slippurinn mun ganga frá millidekkinu rétt eins og í Vestmannaey.

Gamla Bergey, sem fengið hefur nafnið Runólfur, var afhent nýjum eiganda í gær en það er Guðmundur Runólfsson hf. í Grundarfirði sem fest hefur kaup á skipinu. Eina skipið af þeim fjórum sem hér koma við sögu og er á veiðum er Smáey. Smáey landaði fullfermi á Seyðisfirði sl. mánudag og aftur í gær.

Arnar Richardsson, rekstrarstjóri Bergs-Hugins, segir í frétt Síldarvinnslunnar að verkefnin að undanförnu hafi verið óvenju fjölbreytt og þessum verkefnum hefur verið sinnt óvenju víða; í Vestmannaeyjum, í Noregi, á Akureyri og síðan fyrir austan þar sem Smáey hefur verið að veiðum. „Það hefur verið í býsna mörg horn að líta,“ segir Arnar.