Sjávarútvegsráðherra Kanada, Diane Lebouthillier, tilkynnti í lok júní að 32 ára banni við þorskveiðum á stærri skipum undan ströndum Labrador og Nýfundnalands yrði aflétt. Samtök sjómanna lýsa sig algjörlega andvíg þessum áformum.

Samtökin The Fish, Food, and Allied Workers Union (FFAW) krefjast lögbanns á að ákvörðun Lebouthillier komi til framkvæmda uns skorið hefur verið úr um lögmæti hennar fyrir dómstólum.

„Samtökin telja að með því að eyrnamerkja 11 prósent af heildarkvótanum til kanadískra og alþjóðlegra úthafsveiðiskipa sé blygðunarlaust horft fram hjá bestu vísindum og stefnumörkun þar sem stofninn er enn á varúðarstigi,“ segir í tilkynningu samtakana. Ákvörðunin gangi því í berhögg við lög og reglur.

Svik við fyrri stefnu

Að því er kemur fram í tilkynningu FFAW segir Greg Pretty, formaður samtakanna, ákvörðun ráðherrans í senn óraunhæfa og ósanngjarna.

„Þú getur ekki bara aflétt 32 ára banni og hunsað yfir 40 ára starf án þess að hafa nokkra gilda ástæðu. Við ætlum að tryggja að þessi alvarlegi trúnaðarbrestur og brot á opinberum skyldum gagnvart Kanadamönnum og íbúum Nýfundnalands og Labrador hafi viðeigandi afleiðingar,“ er haft eftir Greg Pretty.

Nánar segir í tilkynningunni að ekki aðeins skorti rök og ástæður fyrir ákvörðun ráðherrans fyrir því að bregða frá núverandi uppbyggingaráætlun heldur sé hún svik við þá stefnu sem lengi hafi verið fylgt um að frumbyggjar og strandveiðimenn njóti forgangs er komi að úthlutun þorskkvótans sem sé nú 115 þúsund tonn.

Áratuga hnignun

Pretty segir samtökin ekki hafa nokkra trú á því að ákvörðun Lebouthillier byggi á yfirveguðum eða upplýstum ástæðum. Það blasi við öllum að hún sé byggð á pólitískum forsendum. Þar sem ráðherrann uppfylli ekki þá skyldu að rökstyðja ákvörðunina verði að draga hana fyrir dómstóla.

Þorskveiðar voru bannaðar við Nýfundnaland árið 1992 eftir að stofninum hafði hrakað í áratugi vegna ofveiði. Þrátt fyrir að settir hafi verið á kvótar í byrjun áttunda áratugarins hélt hnignunin áfram. Bannið sem sett var á 1992 átti upphaflega að vara í aðeins í tvö ár.