Bandaríkjaforseti er kominn í tollastríð við Kanada, Mexíkó og Kína og segir að Evrópa verði næst. Þarna gætu legið miklir hagsmunir undir í fiskútflutningi Íslendinga og útflutningi á eldisafurðum ef allt fer á versta veg. Bandaríkin eru best borgandi markaðurinn fyrir íslenskan ferskfisk, lax og silung. Friðleifur K. Friðleifsson, sem um langt árabil hefur starfað við sölu á sjávarafurðum hjá Iceland Seafood og þekkir þessa markaði út og inn, segir íslenskan sjávarútveg með undraverða aðlögunarhæfni. Nú séu Íslendingar líka í einstæðri stöðu á erlendum þorskmörkuðum vegna skerðinga í Barentshafi.

Hve mikið er flutt út af fiski til Bandaríkjanna á ársgrundvelli og hvernig skiptist það eftir afurðaflokkum? Síðustu aðgengilegu tölur eru frá árinu 2023. Þá voru flutt út alls 28.600 tonn af sjávarafurðum vestur um haf, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Þar af voru rúm 12.700 tonn af frosnum afurðum, 9.500 tonn af ferskfiski, 3.000 tonn af mjöli og lýsi og 3.200 tonn af öðru. Verðmæti útflutningsins nam tæpum 36 milljörðum kr., þar af rúmum 19,3 milljörðum fyrir ferskfisk og tæpum 12,8 milljörðum fyrir frosnar afurðir. Við þetta bætast fiskeldisafurðir en á árinu 2023 voru flutt út tæp 6 þúsund tonn af laxi og silungi, til Bandaríkjanna að verðmæti rúmlega 8,1 milljarður kr. Umtalsverð aukning varð í útflutningi á eldisafurðum til Bandaríkjanna 2024. Íslenskar sjávar- og eldisafurðir eru núna tollfrjálsar inn til Bandaríkjanna.

Viðskiptajöfnuður gæti skipt máli

Friðleifur segir Bandaríkin stærsta einstaka neytenda markaðinn fyrir íslenskar eldisafurðir og gífurlega mikilvægan markað fyrir ferskan þorsk og ýsu. Sjávar- og eldisafurðir til Bandaríkjanna eru núna tollalausar en verði á því breytingar, sem er þó ófyrirséð eins og sakir standa, þá segir Friðleifur að markaðsleg aðlögunarhæfni Íslendinga sé einstök og engar líkur á því að sala stöðvist.

Friðleifur Friðleifsson hjá Iceland Seafood.
Friðleifur Friðleifsson hjá Iceland Seafood.

„Það sem ég held að geti skipt máli upp á framvinduna að gera er hver viðskiptajöfnuðurinn er á milli EES-landanna og Bandaríkjanna andstætt viðskiptajöfnuði ESB og Bandaríkjanna. Hann lítur ágætlega út gagnvart okkur og var neikvæður um þrjá milljarða 2023 ef ég man rétt en svo seldum við töluvert meira af laxi til Bandaríkjanna 2024,“ segir Friðleifur Friðleifsson hjá Iceland Seafood.

Bandaríkin séu langstærsti og best borgandi markaður fyrir íslenskan lax. Landið liggi líka landfræðilega vel í þessum viðskiptum í samanburði við samkeppnisþjóðirnar. Setji Bandaríkin tolla á íslenskar sjávarafurðir og þar með talinn lax þyrfti að marka íslenska laxinum stöðu á evrópskum markaði og það gæti orðið lengra og þyngra ferli.

Framúrskarandi aðlögunarhæfni

Honum sýnist að hótanir um tolla hafi verið settar í loftið með miklum hraði og í framhaldi hafi framkvæmdinni verið frestað um 30 daga gagnvart Kanada og Mexíkó. Bandaríkjamenn kaupi 75% af öllum sínum sjávarafurðum frá Kanada og það liggi í augum uppi að þarna er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir kanadíska framleiðendur en líka bandaríska neytendur. Skelli á 25% tollur þurfi að koma honum út í verðlagið.

„Ég á eftir að sjá þetta allt saman ganga eftir en það er ómögulegt að spá fyrir hvað Trump tekur sér fyrir hendur. Ég les ekkert of mikið í þetta í augnablikinu. Held jafnvel að sjávarútvegur á Íslandi hafi meiri áhyggjur af íslenskum stjórnvöldum en þeim bandarísku. En við sem iðnaður höfum farið í gegnum miklar breytingar á alþjóðasviðinu sem hafa ekki litið sérstaklega vel út í fyrstu en svo hefur ræst ágætlega úr því flestu. Þar vísa ég til banns við sölu á sjávarafurðum til Rússlands, stríðið í Úkraínu og svo höfum við farið í gegn um alls kyns fjármálakrísur í viðskiptalöndum okkar. Aðlögunarhæfnin í sjávarútvegi á Íslandi hefur verið framúrskarandi,“ segir Friðleifur.

Stærstu birgjar í heimi í þorski

Mikill kvótasamdráttur er í þorski í Barentshafinu og segir Friðleifur að Íslendingar séu að verða einn stærsti birgir í þorski í heiminum. Það sé eftirspurn í Evrópu eftir þorski og útlitið sé því alls ekki slæmt. „En auðvitað viljum við hafa aðgang inn í Bandaríkin óbreyttan. Þar seljum við mikið af ferskum fiski, dýr um afurðum og sá markaður er gífurlega mikilvægur fyrir okkur. Við viljum ekki trufla þau viðskipti með einhverjum æfingum af þessu tagi. Neysla á þorski í Evrópu er stöðug og góð hvort sem við horfum til Bretlands eða Suður-Evrópu. Ég sé ekkert í kortunum sem mun breyta því á næstu árum. Við erum að fikra okkur inn í þann fasa að þorskur er að verða meiri heilsuvara og vara fyrir þá sem vilja gera vel við sig og við erum hættir að reyna að metta heiminn með þorski. Þorskur er takmörkuð auðlind og við sitjum á stærsta framboðinu eftir samdráttinn í Barentshafinu. Útlitið er því ágætt fyrir þessa vöru.“