Nokkur fjölgun hefur orðið á langreyði, steypireyði og hrefnu í Norður-Atlantshafi á undanförnum áratugum og mikil fjölgun á hnúfubaki. Þetta kemur m.a. fram í nýju riti sem Norður-Atlantshafsspendýraráðið (NAMMCO) hefur gefið út og tileinkað er hvalatalningum á N-Atlantshafi.

Frá árinu 1987 hafa fimm sinnum farið fram víðtækar talningar á hvölum í samvinnu þjóða við Norðaustur Atlantshaf. Auk Íslendinga hafa tekið þátt Grænlendingar, Færeyingar, Norðmenn, Spánverjar og Kanadamenn. Talningaröð þessi er einstök í sinni röð í heiminum en frumkvæði að þessu samstarfi átti Jóhann Sigurjónsson þá hvalasérfræðingur á Hafrannsóknastofnuninni.

Langreyður er algengasta stórhvelið í Norður Atlantshafi samkvæmt talningunum. Heildarfjöldi á talningasvæðinu á Norðaustur Atlantshafi er talinn vera um 50 þús. langreyðar, en um helmingur þess fjölda var á íslenska talningasvæðinu þar sem talsverð fjölgun hefur orðið á síðustu áratugum.

Steypireyður, þetta stærsta dýr jarðarinnar er mun sjaldgæfari en náfrænka hennar langreyðurin. Samkvæmt talningunum eru líklega um eða innan við 1.000 dýr á öllu talningasvæðinu frá A-Grænlandi til Noregs, og á hún langt í land með að ná þeim fjölda sem var fyrir tíma hvalveiða. Algengust er hún við Ísland þar sem steypireyðum hefur fjölgað nokkuð á síðustu áratugum.

Hrefna er minnsti en algengasti skíðishvalurinn í Norður Atlantshafi. Samkvæmt talningunum 2001 voru um 44 þús. hrefnur á íslenska flugtalningasvæðinu (landgrunnið), en auk þess voru 26 þús. hrefnur á talningasvæði íslensku og færeysku skipanna. Hrefnu hafði þá fjölgað um 4% árlega frá 1987.

Erfitt er að meta fjölda búrhvala vegna þess hve lengi tegundin kafar. Mat á fjölda búrhvala við Ísland samkvæmt nýrri aðferð, sem tekur á þessu vandamáli er 11 þúsund dýr.

Talningarnar hafa leitt í ljós mikla fjölgun hnúfubaks á landgrunnssvæði Íslands, eða um 12% á ári á tímabilinu. Tegundin var sárasjaldgæf við Ísland langt fram eftir 20. öld, en fór að fjölga á áttunda áratugnum og árið 2001 voru um 14 þús. hnúfubakur á talningasvæði íslensku skipanna. Talningarnar benda hins vegar til að hnísu hafi fækkað á landgrunnssvæðinu á tímabilinu 1987-2001.

Sjá nánar um ritið á vef Hafrannsóknastofnunar, HÉR