Fulltrúar í sjávarútvegi í Noregi og hjá Evrópusambandinu sem hagsmuna hafa að gæta í makríldeilunni áttu fund með Maríu Damanaki sjávarútvegsstjóra ESB í gær þar sem þeir hvöttu hana til þess að beita öllu sínu pólitíska afli til þess að ná fram réttlátri lausn, eins og það var orðað.
Fundurinn var haldinn að frumkvæði hagsmunaaðilanna en næsti samningafundur í deilunni hefst á mánudaginn kemur í London.
Hagsmunaaðilarnir lögðu fyrir Damanaki kröfur í ellefu atriðum sem þeir telja að liggja þurfi til grundvallar nýjum samningi. Meðal þeirra eru eftirfarandi kröfur:
Að fyrri tilboð af hálfu ESB og Noregs verði dregin til baka; að Ísland fái ekki að veiða makríl í lögsögum ESB og Noregs; að ekki verði gerður nýr samningur nema öll strandríkin séu aðilar að honum; að nýr samningur gildi í afmarkaðan tíma; að ESB og Noregur verði að beita refsiaðgerðum eftir þörfum; að viðræðum um aðild Íslands að ESB verði slitið; að samningurinn um skiptingu kolmunnakvótans verði endurskoðaður; að Grænland fái ekki stöðu strandríkis eða verði samningsaðili í væntanlegum makrílsamningi.
Frá þessu er skýrt á vef samtaka norskra útvegsmanna (www.fiskebat.no).