Smáforritið Agga er sérhannað öryggisstjórnunarkerfi, sem á að nútímavæða, auðvelda og einfalda utanumhald öryggismála smábáta.

Gísli Níls Einarsson, framkvæmdastjóri Öldu öryggis, þar sem Agga var hönnuð, segir að í raun hafi forritið verið sett út í fyrra en að það hafi verið nokkuð seint miðað við upphaf strandveiða og því vilji menn vekja athygli á þessu forriti að nýju.

„Þetta app er í rauninni öryggisstjórnunarkerfi fyrir smábátasjómenn,“ segir Gísli. Aldan öryggi hafi áður fengið hvatningarverðlaun frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútegi fyrir öryggisstjórnunarkerfið Öldu sem sé fyrir stærri fiskiskip. Agga sé hins vegar sérhannað fyrir smábátasjómenn og sé frítt.

Allt sem snýr að öryggi

Orðið Agga merkir lítil alda og Gísli Níls segir það nafn þess vegna hafa orðið fyrir valinu á öryggisappinu fyrir smábátasjómenn. Með Öggu segir Gísli að smábátasjómenn geti gert „eigin skoðanir“ þar sem þeir fara yfir allt sem snýr að öryggisbúnaði, björgunarbúnaði og ástandi bátsins varðandi öryggi.

„Svo er líka gátlisti sem snýr að því að vera tilbúinn að fara út á sjó. Það er svipað og flugstjóri sem gengur alltaf í kringum vélina. Það er verið að fara yfir grundvallaratriði en gátlistarnir voru hannaðir af Samgöngustofu,“ segir Gísli Níls. „Í þessu felst einnig áhættumat sem við þróuðum með Samgöngustofu.“

Áhættumat leitt í lög

„Það er lögbundið að það eigi að gera áhættumat um borð í öllum skipum og með þessu geta smábátsjómenn sjálfir gert áhættumat sem leiðir þá áfram. Ef þeir merkja að það sé eitthvað ekki í lagi þá koma tillögur um mótvægisaðgerðir; um hvað þeir geti gert sjálfir til að lágmarka þá hættu sem sögð er vera til staðar. Ef þeir koma með einhverja aðra tillögu um það hvernig fjarlægja eigi hættuna þá geta þeir bara skrifað hana sjálfir inn og sett mynd með,“ lýsir Gísli. Allt sé skráð miðlægt.

„Þegar menn eru búnir að gera eigin skoðun eða áhættumatið þá fá þeir tölvupóst með matinu þar sem kemur fram hvað þeir ætla að gera. Sömuleiðis geta þeir alltaf farið inn í Öggu og séð hvert áhættumat eða eigin skoðanir sem þeir hafa gert. Hugsunin er að í framtíðinni muni þetta áhættumat uppfylla þær lagalegu kröfur sem á að gera úti á sjó  en á næsta ári mun Samgöngustofa leggja sérstaka áherslu á að lögbundið áhættumat sé gert um borð í öllum bátum og skipum,“ segir Gísli Níls.

Bætist ört í hópinn

Verkefnið er unnið í samvinnu við Samgöngustofu, Siglingaráð, Slysavarnaskóla sjómanna og Landssamband smábátaeigenda. Gísli segir Samgöngustofu hafa styrkt verkefnið í fyrra um eina milljón króna.

„Þegar við fengum þennan styrk þá lögðum við til alla tæknivinnu frítt á móti en nýttum okkar líka ákveðna hluta úr lausninni fyrir stóru skipin sem við vorum búnir að forrita,“ segir Gísli. Þannig hafi ekki þurft að byrja alveg frá grunni.

„Það er okkar sýn að hafa sem mest áhrif á öryggismál sjómanna og nútímavæða þau,“ segir Gísli. Á annað hundrað manns hafi skráð báta sína í Ögguna og nú þegar strandveiðar sumarsins er að hefjast bætist ört í hópinn.

„Við vonumst til að allir smábátasjómenn  nýti sér Ögguna og við hvetjum alla til þess,“ segir Gísli Níls Einarsson.