Hvert starf í sjávarútvegi skilar um þessar mundir rúmlega tvisvar sinnum meiri verðmætum en á árinu 1997 mælt á föstu verði. Framleiðni hefur aukist með meiri sjálfvirkni sem fylgir tækniframþróun við veiðar og vinnslu sjávarafurða. Aukin hagkvæmni í rekstri sjávarútvegsfélaga ásamt þeirri verðmætasköpun sem hlotist hefur við fullnýtingu fiskaflans hefur einnig stuðlað að aukinni framleiðni í greininni.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um sjávarútveginn. Þar kemur einnig fram að skuldir sjávarútvegsfélaga námu 363 mö. kr. á árinu 2014 og jukust um rúm 6% á milli ára. Á árunum eftir efnahagsáfallið 2008 náði skuldastaða sjávarútvegsfyrirtækja lágmarki á árinu 2013 í 341 ma. kr. og höfðu skuldir þá lækkað um 153 ma. kr. eða um 31% frá árinu 2009.
Arðgreiðslur til eigenda sjávarútvegsfélaga námu 13,5 mö. kr. á árinu 2014 og jukust um 1,7 ma. kr. eða 14% á milli ára. Arðgreiðslur sem hlutfall af EBITDA námu 22% og jukust um 3 prósentustig. • Opinber gjöld sjávarútvegsfélaga námu um 22,9 mö. kr. á árinu 2014 og lækkuðu um 1,6 ma. kr. eða um 6,5% frá árinu á undan. Munar mest á veiðigjöldum sem lækka um 1,6 ma. kr. eða 16,5% á milli ára. Tekjuskattur sjávarútvegsfélaga til greiðslu á árinu 2014 var um 8,8 ma. kr. og hækkaði um 1,1% og áætlað greitt tryggingagjald nam 6 mö. kr. á árinu 2014 og lækkaði um 1,6% á milli ára.