Það kom flestum á óvart að tillaga um bann við alþjóðaverslun með Norður-Atlantshafs bláuggatúnfisk var felld á fundi CITES í Doha í Qatar á dögunum. Vísindamenn höfðu mælt eindregið með banninu vegna langvarandi ofveiði á þessum tiltekna túnfiskstofni. Jafnframt studdi Evrópusambandið tillögu um bann enda þótt ríki innan þess hefðu mestra hagsmuna að gæta í veiðunum.

Breska blaðið The Economist veltir fyrir sér hvers vegna bannið hafi ekki verið samþykkt og kemst að þeirri niðurstöðu að andstaða Japana hafi ráðið þar mestu. Þeir hafi komið með 30 manna sendinefnd á fundinn og haft áhrif á það hvernig fulltrúar margra þróunarríkja greiddu atkvæði, meðal annars með því að greiða ferðakostnað þeirra og vísa til fjárstuðnings Japana við ýmis verkefni í þessum löndum. Bent er á að Japanir eigi mikilla hagsmuna að gæta hvað bláuggatúnfiskinn áhræri því 80% af honum fari til neyslu þar í landi.

Einnig er bent á það í greininni að Evrópusambandið leiki ef til vill tveimur skjöldum í málinu. Þótt alþjóðleg verslun með bláuggatúnfisk hefði verið bönnuð hefði áfram mátt versla með fiskinn milli ríkja innan ESB.

The Economist bendir á að fundir CITES (Samningur um alþjóðaverslun með tegundir í útrýmingarhættu) hafi breyst á síðari árum að því leyti að aðildarríkin sendi í vaxandi mæli fulltrúa frá viðskipta- og sjávarútvegsráðuneytum viðkomandi landa á fundina frekar en fulltrúa ráðuneyta umhverfis- og náttúruverndar eins og áður var.