Í Bretlandi hafa fram að þessu ekki verið birt opinberlega  gögn um skráða kvótaeigendur þar í landi. Eins og gefur að skilja hefur skortur á þessum upplýsingum leitt til alls kyns vangaveltna og jafnvel samsæriskenninga um hverjir eigi kvótann. Í fjölmiðlum hafa ýmsir, til dæmis Manchester United og furstinn af Brúnei, verið nefndir sem stórir kvótaeigendur.

Talsmenn samtaka útvegsmanna í Bretlandi (NFFO) segja löngu tímabært að eyða þessari óvissu og gera lista með nöfnum kvótaeiganda opinberan. Samtökin telja víst að fátt muni kom á óvart á listanum og að langflestir kvótaeigendur séu fiskimenn, útvegsfyrirtæki og aðilar sem eigi sögulegan rétt til veiða.