Fiskistofa hefur auglýst eftir umsóknum um leyfi til línuveiða á bláuggatúnfiski. Atlantshafstúnfiskveiðiráðið, (ICCAT), hefur úthlutað Íslandi 212 tonnum af bláuggatúnfiski á þessu ári, sem er 12 tonnum minna en úthlutað var 2023. Undanfarin ár hafa þessar veiðar ekki verið stundaðar og voru síðast veidd 6 tonn af bláuggatúnfiski árið 2016.

Að hámarki þrjú leyfi

Samkvæmt Fiskistofu skulu veiðarnar standa frá 1. ágúst til 31. desember á veiðisvæði norðan 42° norðlægrar breiddar. Gefin verða út að hámarki þrjú leyfi. Skilyrði fyrir veiðunum er almennt leyfi til veiða í atvinnuskyni og skulu skip vera að lágmarki 500 brúttótonn að stærð. Þá skulu þau hafa fullnægjandi útbúnað til veiðanna og meðhöndlunar bláuggatúnfiskafla. Umsóknir skulu berast Fiskistofu fyrir 1. júní nk. og í samræmi við kröfur Atlantshafstúnfiskveiðiráðsins skulu skip sem fá leyfi til veiðanna hafa eftirlitsmann frá Fiskistofu um borð.

Lítill áhugi á veiðunum undanfarin ár

Ísland hefur náð að tryggja sér umtalsverðir veiðiheimildir á vettvangi Atlantshafs-túnfiskveiðiráðsins undanfarin ár en áhugi íslenskra útgerða hefur verið takmarkaður. Á árunum 2011 til 2016 sveifluðust veiðiheimildirnar úr því að vera 25 tonn upp í 44 tonn árið 2016 sem var síðasta árið sem íslensk skip stunduðu þessar veiðar. Þá bárust á land einungis 6 tonn. Óttast var að veiðiheimildirnar gætu að óbreyttu rýrnað eða jafnvel horfið með öllu þar sem veiðar væru ekki stundaðar. Áfram hefur Ísland þó fengið veiðiheimildir á hverju ári, 225 tonn á árinu 2021, 224 tonn árið 2023 og 212 tonn á þessu ári.

Einn túnfiskstofn, sem er Austur Atlantshafstúnfiskur, gengur inn í íslenska lögsögu. Um er að ræða einhverja verðmætustu sjávarafurð sem til er þegar fiskurinn nær á markað. Túnfiskurinn sem gengur inn í íslensku lögsöguna veiðist allt frá Miðjarðarhafi og norður undir Ísland. Talið er að hann sé hér á haustin í ætisleit við nyrstu mörk útbreiðslu sinnar.

Túnfiskur skorinn hjá Vísi hf. í Grindavík sumarið 2016. FF MYND/GUGU
Túnfiskur skorinn hjá Vísi hf. í Grindavík sumarið 2016. FF MYND/GUGU

Stærstur hluti heimildanna brunnið inni

Fyrsta tilraunin til að veiða kvótann var gerð árið 2012. Vísir í Grindavík hefur til þessa náð bestum árangri og færði á land um 48 tonn samtals. Árið 2016 skiluðu veiðarnar sem fyrr segir einungis 6 tonnum og hefur veiðum ekki verið sinnt síðan, hvorki af Vísismönnum né öðrum.

Heildarveiði Íslendinga á túnfiski eftir inngöngu í túnfiskveiðiráðið árið 2002 er á milli 80 og 90 tonn. Meirihlutinn hefur veiðst í beinum veiðum en rúmlega 30 tonn eru meðafli, helst á makrílveiðum. Því má segja að af íslenska kvótanum frá því árið 2003 hafi um 1.600 tonn brunnið inni, en samanlagðar aflaheimildir Íslands frá upphafi eru rúmlega 1.700 tonn.