„Okkur fannst viðbrögð Landhelgisgæslunnar æði harkaleg. Þeir komu um borð til okkar eins og við værum einhverjir ótíndir glæpamenn, þótt við værum búnir að senda frá  okkur aflaskeyti í heila viku. Það var aldrei verið að fela neitt og þeir hefðu getað gripið inn í miklu fyrr, ef þeim hefði hentað,“ segir Páll Þórir Rúnarsson skipstjóri á Brimnesi RE í samtali við Fiskifréttir en  Landhelgisgæslan vísaði skipinu til hafnar í fyrrinótt fyrir meintar ólöglegar veiðar á norsk-íslenskri síld í grænlensku lögsögunni.

Engar rannsóknir á síldinni

„Við vorum með leyfi grænlenskra stjórnvalda til þess að veiða síld í lögsögu þeirra. Hver segir að þetta sé norsk-íslensk síld? Það veit enginn enda hafa ekki verið gerðar neinar rannsóknir á því. Engin kort eru til um útbreiðslu norsk-íslenskrar síldar í grænlenskri lögsögu. Ef þetta er norsk-íslensk síld hljóta Grænlendingar að eiga rétt á hlutdeild í þeim stofni. Það finnst síld inni á grænlensku fjörðunum, eigum við hana líka? Menn geta ekki eignað sér fisk í annarra lögsögu. Það finnst okkur að minnsta kosti ekki þegar erlendar þjóðir reyna að eigna sér makrílinn sem gengur inn í íslenska lögsögu,“ segir Páll.

Að sögn Páls urðu þeir varir við síld á gríðarlega stóru svæði innan grænlensku lögsögunnar frá því beint norður af Straumnesi frá 23° vestur og alveg austur á 14°. Þeir voru að leita að makríl en fengu bara stóra og góða síld.

Því má bæta við að Guðmundur í Nesi RE var í mokveiði á síld miklu vestar í grænlensku lögsögunni en Brimnesið, að því er Kristján Guðmundsson skipstjóri tjáði Fiskifréttum. Hann staðfesti það sem áður hefur komið fram, að upplýsingarnar sem Fiskifréttir fengu hjá Landhelgisgæslunni í morgun um að danskt varðskip hefði haft afskipti af Guðmundi í Nesi RE voru ekki á rökum reistar.