Íslensku uppsjávarskipin hafa verið á kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni undanfarið, og gengið vel en á mánudagskvöld var kolmunninn farinn á aðrar slóðir.

„Það er búið að vera rólegra núna síðan í gær,“ sagði Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffelli SU þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn á þriðjudag. „Það var mjög lítið í gærkvöld og nótt en búið að vera allt í lagi fram að því. Við erum komnir núna að hólfi sem er lokað og við komumst ekki inn, erum að keyra suður eftir núna. Veit ekki alveg hvað við förum langt.“

Á sömu slóðum eru Gullberg, Hamranes, Hákon, Jón Kjartans, Beitir, Vilhelm Þorsteinsson, Sigurður og fleiri skip. Þar á meðal færeysk skip og nokkur norsk og rússnesk.

Hoffell SU 80 var keypt til landsins á síðasta ári og Sigurður skipstjóri segir nýja skipið hafa reynst vel.

„Jú, það hefur ekkert stórvægilegt komið upp á hjá okkur. Hann er bara mjög ljúfur. Þetta er stærra, burðarmeira og öflugra en sá gamli. Sá gamli var nú samt góður, en hann var minni.“

Magur fiskur

Þetta er þriðji kolmunnatúr skipsins frá áramótum og Sigurður segir miðað við að taka um eða rétt rúmlega 2200 tonn í hverjum túr. Enn sé fiskurinn þó harla magur.

„Hann er mjög magur búinn að vera, lítil fita í honum. Hann verður slakur út maí. Svo verður hann betri í haust, þá verður hann feitari.“

Hann segir ómögulegt að segja til um hvort kolmunninn færi sig nær Íslandi þegar á líður.

„Það er spurning, þegar hann kemur hérna megin við Færeyjar þá hefur hann tilhneigingu til að koma í meira magni upp í Rósagarð og þangað. Við erum að vona það.“

Það gæti orðið í vor eða sumar eða jafnvel þegar líða tekur á haustið. En Sigurður reiknar að minnsta kosti með að vera á kolmunna áfram næstu vikurnar.

„Já, ætli við verðum ekki fram að sjómannadeginum eða eitthvað svoleiðis, förum þá að veiða makríl. Þetta er sami hringurinn, já.“