Á loðnuvertíðum síðustu ára hafa hvalir valdið veiðiskipunum miklum vandræðum. Hvalamergð hefur fylgt loðnugöngunum og hvað eftir annað hafa skipin lent í veiðarfæratjóni vegna hvala. Á nýliðinni vertíð var hins vegar annað uppi á teningnum; hvalir voru sjaldséðir og úti fyrir suðurströndinni og fyrir vestan land sáust nánast engir hvalir, segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar .
„Þegar við vorum að leita fyrir norðan land núna í byrjun árs sáum við einn og einn hval en á undanförnum vertíðum hefur hvalafjöldinn á þeim slóðum verið ótrúlega mikill. Þegar komið var suður fyrir Langanes sást varla nokkur hvalur núna á vertíðinni. Ég man að við sáum hvali við Skrúð og síðan aftur við Stokksnes en þeir voru sárafáir. Það voru hnúfubakar sem þarna sáust. Eftir það sáum við engan hval, sem er mikil breyting frá síðustu vertíðum en þá hefur hvalurinn fylgt loðnunni alveg inn í Faxaflóa,“ segir Geir Zoёga skipstjóra á Polar Amaroq í samtali við heimasíðu SVN.
Einnig er rætt við Gísla Víkingsson, hvalasérfræðing á Hafrannsóknastofnun. Þar kemur fram að haustið 2015 hafi farið fram hvalatalning á loðnumiðum samhliða mælingum á stærð loðnustofnsins. Niðurstöður hennar voru að á svæðinu hefðu verið um 7 þúsund hnúfubakar auk um 5 þúsund langreyða. Ekki voru taldir hvalir í loðnuleiðöngrum í janúar og febrúar 2017. „Hugsanlega hefur hnúfubakurinn fundið loðnu eða aðra fæðu utan hefðbundinna svæða en án frekari upplýsinga er einungis hægt að geta sér til um ástæðurnar. Hvalatalningar að vetrarlagi eru erfiðar vegna myrkurs og veðurlags, en gervitunglamerkingar gætu varpað ljósi á ferðir hvalanna á þessum árstíma,“ segir Gísli.