Nesfiskur hf. í Garði hefur gert kauptilboð í tvö skip í eigu Skinneyjar-Þinganess á Hornafirði. Um er að ræða skipin Hvanney SF og Steinunni SF en bæði eru um 29 metrar á lengd og smíðuð í Kína árið 2001.

Kauptilboðið miðast við að skipin verði seld án aflahlutdeildar eða annarra aflaheimilda. Aflahlutdeildir skipanna verða fluttar til annarra skipa Skinneyjar-Þinganess. Sveitarfélaginu var boðið að neyta forkaupsréttar á skipunum. Bæjarráð Hornafjarðar gerir ekki athugasemd við að skipin verði seld. Sveitarfélagið mun ekki nýta forkaupsréttar á þeim.

Ný skip á leiðinni

Skinney-Þinganes undirritaði samning um smíði á tveimur nýjum togskipum í desember 2017. Koma þau í stað Hvanneyjar SF og Steinunnar SF. Áætlað var að smíði hvors skips tæki 14 mánuði og er gert ráð fyrir að skipin verði afhent í október og nóvember 2019. Skipin eru smíðuð af VARD í Noregi en fyrirkomulag og val á búnaði er unnið í samstarfi við útgerðirnar. Skipin verða 28,95 metar að lengd og 12 metrar að breidd. Í skipunum verða tvær aðalvélar með tveimur skrúfum. Ný kynslóð rafmagnsspila verða í skipunum frá Seaonics.

Þessi nýju systurskip verða vel búin í alla staði og í þeim verða íbúðir fyrir 13 manns. Þau munu taka um 80 tonn af ísuðum fiski í lest.