Stjórn Faxaflóahafna ætlar ekki að finna hvalveiðibátum Hvals hf annan stað en í gömlu höfninni í Reykjavík eins og borgarstjórn óskaði eftir í vor. Þetta kemur fram í nýjustu fundagerð stjórnarinnar.

„Hafnarstjóri lagði fram minnisblað yfirhafnsögumanns er lýtur að möguleikum á staðsetningu hvalveiðibátanna annars staðar en við Ægisgarð. Hafnarstjóri kynnti þá ákvörðun sína sem tekin var með hliðsjón af útlistun og niðurstöðu yfirhafnsögumanns að staðsetningu hvalveiðibátanna verði ekki breytt að svo stöddu.

Stjórn gerði ekki athugasemd við ákvörðun hafnarstjóra,“ segir um afgreiðslu málsins í stjórn Faxaflóahafna.

Ríkisútvarpið hefur minnisblað yfirhafnsögumannsins undir höndum og segir frá efni þess í frétt sinni fyrr í dag.

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti 16. maí síðastliðinn að beina því til stjórna Faxaflóahafna að finna „annan stað fyrir hvalveiðiskip fyrirtækisins Hvals hf. en í miðri gömlu höfninni í Reykjavík sem er miðstöð ferðamennsku og hvalaskoðunar,“ eins og sagði í tillögunni.

Um var að að ræða breytingartillögu meirihlutaflokkanna í borgarstjórn við tillögu borgarfulltrúa Vinstri grænna sem lagt hafði til að samningi við Hval um hafnaraðstöðu yrði sagt upp eða skipunum fundinn annar staður.

Gætu farið í Hvalfjörð

„Reykjavíkurhöfn vex fiskur um hrygg sem vinsæll viðkomustaður ferðafólks, iðandi af lífi og með fjölbreyttu úrvali af haftengdri afþreyingu. Það er því löngu orðið tímabært að finna hvalveiðiskipunum annan viðlegukant en í gömlu höfninni, þar sem þau taka pláss frá vaxandi atvinnustarfsemi í m.a. ferðamennsku. Ekkert er því til fyrirstöðu að finna þeim annan stað en í hjarta Reykjavíkur og jafnvel gætu þau farið aftur í höfn eiganda síns í Hvalfirði,“ bókaði fulltrúi VG eftir að breytingartillagan var samþykkt.

Fulltrúi Sósíalista vildi að samningnum yrði slitið. „Í framlagðri breytingartillögu meirihlutans er einungis lagt til að hvalveiðiskipunum verði fundinn annar staður. Sósíalistar hefðu viljað ganga lengra og telja mikilvægt að bregðast við því þegar fyrirtæki sem nýtur aðstöðu innan borgarinnar gerist uppvíst að brotum og fylgir ekki markmiðum laga,“ sagði í bókun sósíalista.

„Ef við viljum hindra hvalveiðar er kannski best að þessi skip verði bundin sem rækilegast við bryggju um aldur og ævi. Ef tillagan er samþykkt er hér vissulega um skýra yfirlýsingu að ræða og mun Flokkur fólksins því styðja þessa tillögu,“ bókaði fulltrúi Flokks fólksins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins.