Veiðar á langreyðum hafa undanfarin tvö ár verið hafnar um þetta leyti árs en hvalveiðibátar Hvals hf. liggja enn við bryggju í Reykjavík. Nú þegar iðnaðarmenn, vélvirkjar og rafvirkjar virðast hafa náð samningum ríkir minni óvissa um veiðarnar.
Á www.skessuhorni.s er sagt frá því að Hval 8 hafi verið prufusiglt í gærkveldi. Verulegar endurbætur hafi átt sér stað á hvalstöðinni í Hvalfirði í vetur og mun þeim að mestu lokið.
Nú er hvalkjöt frá síðustu vertíð komið til Norður-Noregs og til stendur að senda það norðausturleiðina á markað í Asíu þegar hún opnast í sumar.
Samkvæmt www.skessuhorn.is er þetta í fyrsta sinn sem menn reyna að sigla með frosnar sjávarafurðir frá Evrópu til Asíu um norðausturleiðina. Norðmenn eigi mikilvæga markaði fyrir sjávarafurðir í Asíu og það komi því ekki á óvart að þeir sýni slíkri frumkvöðlasiglingu áhuga.
Skessuhorn vitnar í norska sjávarútvegsblaðið Fiskaren þar sem fram kom að hvalkjötið um borð í Winter Bay sé 180 milljóna norskra króna virði, eða um um þrír milljarðar íslenskra króna.