Tekjur Hvals hf. af sölu hvalaafurða námu 3,4 milljörðum króna á síðasta fjárhagsári samanborið við 45 milljónir árið áður. Þetta meðal annars kemur fram í umfjöllun Viðskiptablaðsins sem kom út í dag.
Hvalur hf. hagnaðist um rúma 3,5 milljarða króna eftir skatta á fjárhagsárinu 2022/23 samanborið við 890 milljónir árið áður. Stjórn félagsins lagði til við hluthafa að greiddur verði arður að fjárhæð 1,5 milljarðar króna á árinu 2024.
Tekjur Hvals námu tæplega 8,7 milljörðum króna á síðasta fjárhagsári sem lauk 30. september 2023, samanborið við 1,4 milljarða árið áður.
Eignarhlutur í Hampiðjunni metinn á 29,6 milljarða
Munurinn skýrist að stærstum hluta af 4,1 milljarðs tekjufærslu í tengslum við 11 milljarða króna hlutafjárútboð Hampiðjunnar í maí 2023 þar sem eignarhlutur Hvals fór úr 46,1% í 37,2%. Í ársreikningi Hvals kemur fram að félagið hafi keypt hluti í Hampiðjunni fyrir 925 milljónir í fyrra. Eignarhlutur Hvals í Hampiðjunni er í dag metinn á rúma 29,6 milljarða.
Tekjur af sölu hvalaafurða námu 3,4 milljörðum króna á síðasta fjárhagsári samanborið við 45 milljónir árið áður. Stóraukna sölu má rekja til þess að lítið var til af birgðum á fyrra ári þar sem ekki voru stundaðar hvalveiðar árin 2019-2021 en veiðar hófust að nýju í júní 2022.
Hvalur veiddi 148 langreyðar árið 2022 en aðeins 24 á vertíðinni 2023 sem litaðist mjög af reglugerð matvælaráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, um frestun veiða fram í septembermánuð.