Hvalur hf. hyggst höfða mál á hendur íslenska ríkinu til viðurkenningar bótaskyldu vegna þess tjóns sem félagið telur sig hafa beðið vegna ákvörðunar Svandísar Svavarsdóttur, þáverandi matvælaráðherra, um að stöðva hvalveiðar tímabundið sumarið 2023. Viðskiptablaðið segir frá þessu.
Í ársreikningi Hvals hf. kemur fram að fyrirtækið hafi áður óskað eftir viðræðum við ríkið um uppgjör fjárbóta en þær ekki leitt til niðurstöðu og ríkið ekki fallist á bótaskyldu. Byggir félagið á að ákvörðunin hafi verið andstæð lögum og vísar m.a. því til stuðnings til álits umboðsmanns Alþingis, þar sem fram kom að frestun upphafs hvalaveiða hafi ekki átt sér nægilega skýra stoð í lögum um hvalveiðar.
Hvalur hf. var rekið með 224 milljóna króna tapi á síðasta rekstrarári, sem nær yfir tímabilið 1. október 2023 til 30. september 2024. Um var að ræða verulegan viðsnúning frá fyrra rekstrarári er hagnaður félagsins nam tæplega 3,5 milljörðum.