Hvalur hf. fer fram á að íslenska ríkið greiði starfsmönnum fyrirtækisins laun fyrir það tímabil sem bann á hvalveiðum var í gildi. Þetta kemur fram í kröfugerð Hvals sem send var á ríkislögmann og sagt er frá í frétt á www.ruv.is.
Í kröfu Hvals kemur fram að fyrirtækið telur sig hafa orðið fyrir stórfelldum tekjumissi og fjárútlátum vegna ákvörðunar matvælaráðherra að banna veiðar á langreyðum tímabundið á síðasta ári.
Í kröfunni segir að Verkalýðsfélag Akraness hafi lýst yfir þeirri afstöðu að starfsmenn Hvals ehf eigi launakröfur á hendur fyrirtækinu vegna tímabilsins þar sem bannið var í gildi. Félag skipstjórnarmanna hafi einnig lýst því yfir fyrir sitt leyti.
Tekið er fram að Hvalur hf. líti svo á að haganlegast væri ef íslenska ríkið greiddi bætur til þeirra starfsmanna fyrirtækisins og þeirra sem eiga í hlut í samræmi við tekjumissinn.
Óskað er eftir viðræðum við íslenska ríkið um bótauppgjör út frá þeim forsendum sem birtast í kröfunni.
Þá nefnir fyrirtækið að mögulegt væri fyrir íslenska ríkið og Hval ehf. að mynda með sér samkomulag um aðila sem metið gætu tjón félagsins í formi utanréttarmatsgerðar. Það væri þó ekki bindandi, hvorki fyrir Hval ehf eða íslenska ríkið.