Forráðamenn Hvals hf. hafa ákveðið að hvalveiðiskipin fari ekki til veiða í byrjun vertíðar heldur beðið átekta fram í ágústmánuð. Ástæðan er afleiðingar flóðbylgjunnar og jarðskjálftanna miklu í Japan í vetur, en meðal þess sem flóðbylgjan hreif með sér var niðurlagningaverksmiðja sem vann úr hvalaafurðum frá Hvalfirði.
Gunnlaugur Fjólar Gunnlaugsson verkstjóri í Hvalstöðinni í Hvalfirði segir í samtali við Skessuhorn það mikil vonbrigði fyrir alla að blása þurfi veiðarnar af fyrri hluta sumars og óvissuna með hvort af veiðum verði. Það væri ekki aðeins þessi eyðilegging á mannvirkjum í Japan, heldur þjóðarsorg í landinu, sem leiði til þess að fólk fari lítið út fyrir hússins dyr, svo sem á matsölustaði. Gunnlaugur segir að í vetur hafa um 25 manns unnið í Hvalfirði að ýmsum lagfæringum og endurbótum á húsnæði og búnaði vinnslunnar.
Ljóst er að þessar fregnir eru töluvert áfall fyrir atvinnulíf á Vesturlandi, en hátt á annað hundrað manns hafa haft vinnu og góðar tekjur yfir hvalveiðitímabilið frá byrjun júní til loka september. Þar á meðal skólafólk sem nú þarf að snúa sér annað í leit að vinnu, þar sem ekki er um auðugan garð að gresja.