„Það er búið að vera erfitt,“ sagði Stefán Sigurðsson, skipstjóri á Guðmundi í Nesi RE, þegar Fiskifréttir ræddu við hann fyrir helgi.
Áhöfnin á Guðmundi í Nesi lagði upp frá Reykjavík þann 19. febrúar síðastliðinn og tók stefnuna að venju á grálúðumiðin á Hampiðjutorgi úti af Vestfjörð um. Áætlað er að komið verði til hafnar að nýju 13. mars.
Stefán sagði veðrið hafa sett rækilega strik í reikninginn þótt inni á milli gæfist tækifæri til veiða.
„Febrúar er búinn að vera mjög erfiður veðurfarslega séð og það hefur verið mjög lítið um grálúðu. Það komu reyndar þrír dagar sem varð aðeins vart við hana aftur. Þó að það sé gott veður í dag og í gær þá er búið að vera mjög erfið tíð. Og nú er að koma bræla aftur í kvöld,“ sagði hann. Í hendur hafi haldist erfitt tíðarfar og það að lítið sé af grálúðunni.
Ekki uppeldisstöðvar í reglugerðarhólfi
Auk grálúðukvóta er Guðmundur í Nesi með kvóta í karfa. „Við förum upp í Víkurál og tökum gullkarfa þar. Hérna kemur djúpkarfi, rauður karfi eins og við köllum hann, með af og til,“ sagði Stefán. Það sé þó alls ekki í miklu magni
„Það var nú sett reglugerð arhólf hérna fyrir rúmum tveimur árum af því að það var talið að það væri svo mikið af rauðum karfa þar. Þeir hafa haldið að uppeldisstöðvar fyrir rauðan karfa séu hér en það er nú alls ekki, ég veit ekki hvaða vísindi þetta eru, ef ég á að segja alveg eins og er,“ sagði Stefán.
Spurður hvort veiðin hafi verið léleg til lengri tíma sagði Stefán hana hafa verið kaflaskipta.
Bíða eftir hitaskilum
„Þetta fer eftir hitaskilum í botninum. Við erum að bíða eftir að þau komi og þá kemur grálúðan stundum með þegar þau fara rólega af stað hér suður eftir. Það getur staðið í nokkra daga og svo verður bara tregt. En það er búið að vera óvenju lítið af lúðu í febrúar miðað við til dæmis síðasta ár og árið þar á undan. Það hefur oft verið miklu meira á þessum tíma,“ sagði Stefán.
Úthaldið hjá Guðmundi í Nesi er yfirleitt á bilinu 22 til 24 dagar að sögn Stefáns. Aflinn er frystur um borð. Þótt aflinn sé ekki jafn mikill og í fyrra sé fiskurinn góður. „Grálúðan er hausuð og sporðskorin. Það er hundrað prósent hirt, hausar og sporðar og allt saman. Það er eftirspurn eftir þessu og þetta er allt sölu vara. Þetta fer mikið á Japan og Taívan og þarna suður eftir,“ sagði hann.
Hvalurinn sér um þetta
„Ætli hvalurinn sjái ekki bara um þetta,“ svaraði Stefán inntur eftir mögulegum skýringum á dræmari veiði.
„Það er vaðandi í hval út um allt hérna. Það er búið að vera gott veður í dag og í gær og það blása svoleiðis strókarnir allt í kring um okkur, sérstaklega ef maður er að hífa, þá koma þeir alveg að skipinu. Í gær var einn búrhvalur alveg við afturendann á skipinu þegar við vorum að hífa svo stakk hann sér bara beint niður. Þeir koma oft þegar verið er að hífa og halda kannski að það hrynji eitthvað úr netinu. Þeir eru að minnsta kosti mjög naskir á það þegar maður er að hífa hvern ig þeir koma að skipinu,“ sagði Stefán sem vildi ekki kveða upp úr með það hvort hvalurinn sé að hafa af okkur afla.
Kristján Loftsson verði að fara að mæta
„Maður getur ekkert sagt um það náttúrlega en ég veit bara að það er hellingur af hval. Ég sá gríðarlegt magn af hval á Halanum í fyrra, ég hef bara ekki séð annað eins, þetta var eins og gossprunga, það var alveg svakalegt að sjá þetta. Hann hlýtur að hafa verið í ein hverju æti þarna,“ sagði Stef án. Þetta hafi ábyggilega verið hnúfubakur
Þannig að samkeppnin er einhver frá hvalnum. „Kristján Loftsson verður að fara að mæta og ná í hann. Það tala allir um hvað það er mikið af hval úti um allt,“ sagði Stefán Sigurðsson, skipstjóri á Guð mundi í Nesi RE.