Í nýliðnum júlímánuði voru tveir atburðir í hafinu við Ísland sem sæta tíðindum meðal hvalvísindamanna. Annars vegar veiddist kynblendingur langreyðar og steypireyðar djúpt vestur af landinu, og hins vegar sást sléttbakur í Faxaflóa.
Blendingur dreginn á land
Þann 7. júlí 2018 var dreginn á land í Hvalstöðinni í Hvalfirði sérkennilegur hvalur sem bar einkenni tveggja stærstu dýrategunda heims, steypireyðar og langreyðar. Starfsmaður Hafrannsóknastofnunar sem var við mælingar og sýnatöku í hvalstöðinni tilkynnti strax um atvikið og gerði viðeigandi athuganir og mælingar auk sýnatöku. Við fyrstu sýn virtist dýrið líkjast þeim fjórum kynblendingum sem áður höfðu veiðst og bar einkenni beggja tegunda.
Almennt má segja um alla þá blendinga sem veiðst hafa að þeir líkist langreyði baklægt og steypireyði kviðlægt, og er það væntanlega ástæðan fyrir því að þeir voru veiddir sem langreyðar. Hornið (bakugginn) á þessum tiltekna hval var eins og á dæmigerðri langreyði, og umtalsvert hærri en mælst hefur stærst hjá steypireyði. Þá var litur og lögun höfuðs mun líkara langreyði. Steypireyðareinkenni voru hins vegar dökkur litur skíðanna (utan frá séð) og yrjótt litamynstur á aftari hluta líkamans. Kviðlægt var skepnan að mestu leyti gráleit, eins og hjá steypireyði, en þó var stór hvítur blettur á kviðfellingunum, þar sem langreyður er alhvít. Eitt helsta einkenni langreyðar er ósamhverfa í litamynstri á haus þar sem fremri hluti skíðanna og neðri kjálka hægra megin er hvítur eða ljósgulur. Þetta mynstur var ekki sjáanlegt utan frá en við nánari skoðun kom í ljós að skíðin voru ljósari á þessu svæði sem stangast á við skíði steypireyðar sem eru einsleit, svört eða dökkgrá.
Niðurstaða véfengd en sönnuð
Bráðabirgða niðurstaða Hafrannsóknastofnunar var að um væri að ræða blending en að staðfestingu yrði leitað með erfðafræðilegum aðferðum í vertíðarlok líkt og gert hefur verið í fyrri tilfellum þegar meintir blendingar hafa veiðst. Þessi niðurstaða var véfengd af nokkrum hvalfriðunarsamtökum og hópi vísindamanna m.a. frá Háskóla Íslands sem héldu því fram að dýrið væri steypireyður. Í kjölfarið var ákveðið að flýta eins og kostur væri greiningu erfðasýna til að fá niðurstöðu eins fljótt og mögulegt væri.
Umrætt sýni var greint á rannsóknastofu MATÍS ásamt öðrum sýnum úr blendingum sem safnað hefur verið úr atvinnuveiðum, alls 5 einstaklingum. Þá voru greind erfðasýni úr 24 langreyðum sem safnað var í ár auk þeirra 154 sem veiddust árið 2015. Jafnframt voru greind eldri sýni úr steypireyði (23 einstaklingar) sem til eru í lífsýnasafni Hafrannsóknastofnunar. Meðfylgjandi mynd sýnir niðurstöður erfðagreiningar fyrir alla 206 hvalina sem unnið var með. Einleitu rauðu súlurnar sýna langreyðar en grænu heilu súlurnar sýna eldri sýni úr steypireyði. Þau fimm sýni sem eru bæði rauð og græn eru úr hvölum sem greinast sem blendingar. Hluti þeirra hefur áður verið greindur sem blendingar og niðurstöður birtar í ritrýndum vísindatímaritum. Umræddur hvalur sem veiddist 7. júlí er merktur sem hvalur 22 á myndinni.
Allir af fyrstu kynslóð
Niðurstöður greininganna staðfesta að allir hvalirnir sem greindir hafa verið sem blendingar eru af fyrstu kynslóð þar sem annað foreldrið var hrein steypireyður og hitt foreldrið langreyður.
Niðurstöðurnar erfðafræðirannsóknanna staðfesta því bráðabirgðaniðurstöðu Hafrannsóknastofnunar að umræddur hvalur var blendingur langreyðar og steypireyðar og að móðirin var steypireyður en faðirinn langreyður.
Því má bæta við að ekki er fulljóst hvort blendingar þessir geti eignast lífvænleg afkvæmi. Ein kýrin var með fóstri sem þó var óvenju vanþroskað miðað við árstíma. Allir blendingarnir eru af fyrstu kynslóð og engin merki hafa fundist um kynblöndun í miklum fjölda langreyða og steypireyða sem skoðaðar hafa verið í þessu tilliti. Þetta bendir til að blendingarnir geti ekki af sér lífvænleg afkvæmi.
Sjaldséður gestur
Þann 23. júlí 2018 sást torkennileg stórhveli í ferð Hvalaskoðunar Reykjaness. Áhöfninni tókst ekki að greina hvalinn til tegundar áður en hún missti sjónar á dýrinu. Síðar um daginn sást hvalurinn í hvalaskoðunarferðum Eldingar frá Reykjavík og var þá greindur sem sléttbakur. Hvalurinn sást einnig í Faxaflóa daginn eftir en ekki síðan svo mér sé kunnugt um.
Sléttbakur er sú hvalategund sem er í mestri útrýmingarhættu allra stórhvala og er talið að stofninn sé um 450 dýr sem halda mest til við austurstrendur Bandaríkjanna og Kanada. Þetta eru leifar af stofni sem áður var útbreiddur í Norður Atlantshafinu m.a. við Ísland og er stundum kallaður Íslandssléttbakur til aðgreiningar frá Norðhval (Grænlandssléttbak). Sléttbakar eru hægsyndir og feitir og voru því veiðanlegir mörgum öldum áður en gufuskip og sprengiskutlar gerðu mönnum kleift að veiða reyðarhvalina (t.d. steypireyði og langreyði) frá seinni hluta 19. aldar.
Sléttbakar voru veiddir hér við land a.m.k. frá upphafi 17. aldar af Böskum og öðrum evrópskum hvalveiðiþjóðum og eru minjar um hvalveiðistöðvar þeirra m.a. á Ströndum. Afar sjaldgæft er að sléttbakur sjáist við strendur Íslands í seinni tíð. Síðast gerðist það árið 2003 er tveir sléttbakar sáust við Snæfellsnes og árið 1992 sást sléttbakur í fuglatalningu Arnþórs Garðarssonar við Vestmannaeyjar. Í hvalatalningum Hafrannsóknastofnunar sáust stakir sléttbakar djúpt suðvestur af landinu árin 1987 og 1995 og auk þess sléttbakskýr með kálf sumarið 1989.
Tarfurinn Mogul
Vegna yfirvofandi útrýmingarhættu er stundaðar miklar rannsóknir á sléttbak við austurstrendur Norður Ameríku. Verndaraðgerðir hafa borið takmarkaðan árangur og var tilkynnt um 17 dauðsföll á árinu 2017, einkum vegna krabbagildruveiða og árekstra við skip. Sléttbakar eru tiltölulega auðgreinanlegir af ljósmyndum og eru allir „Íslandsfararnir“ þekktir úr ljósmyndabanka bandarískra vísindamanna. Hvalurinn sem sást í júlí s.l. er 10 ára gamall tarfur og ber þar nafnið Mogul.
Þetta virðist vera fyrsta ferð hvalsins á Íslandsmið því hingað til hefur hann synt til Kanada á sumrin.
Gísli Víkingsson, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun