„Það er fjöldi hvala hér á veiðislóðinni og þeir eru að krækja sér í loðnu í kapp við okkur. Margir bátar hafa fengið hvali í nótina. Við höfum sloppið með smárifu á okkar nót en bátur hér nálægt okkur fékk fimm hvali í nótina þannig að veiðarfærið var í hættu,“ segir Mons Eivind Troland skipstjóri á norska loðnubátnum Knester í samtali við Fiskeribladet/Fiskaren.
Það er ekkert nýtt að hvalir séu aðgangsharðir á loðnuveiðum, bæði við Grænland, Ísland og í Barentshafi, segir skipstjórinn. „Við verðum að skjóta meira af hval“.
Norsku loðnuskipin hafa nú veitt rúm 16.000 tonn í grænlensku lögsögunni en mega taka þar allt að 47.300 tonn. Við Ísland mega þau veiða allt að 36.000 tonn. Heildarkvótinn á svæðinu öllu er 70.700 tonn.