Óumflýjanlegar takmarkanir stjórnvalda á samgangi fólks vegna covid – 19, og samgöngubann þar sem fleiri en 20 manns koma saman, hefur haft þau áhrif að hvalaskoðunarfyrirtæki hafa neyðst til að fella niður alla sína starfsemi tímabundið.

Á heimasíðu Eldingar, sem skipuleggur ferðir frá Reykjavík og Akureyri, kemur fram að allar ferðir á vegum fyrirtækisins hafa verið felldar niður til 14. apríl. Þar er tekið fram að öryggi starfsfólks og gesta gangi að sjálfsögðu fyrir.

Sama er uppi á teningnum hjá Norðursiglingu á Húsavík sem hefur fellt niður allar sínar ferðir til sama dags.

Á frétta- og skipasíðu Þorgeirs Baldurssonar , sjómanns og ljósmyndara á Akureyri, segir frá því að staðan er með sama hætti hjá fyrirtækjum sem gera út hvalaskoðunarbáta á Eyjafirði.

Samtöl Þorgeirs við forsvarsfólk fyrirtækjanna á svæðinu leiða þetta í ljós sem segja jafnframt að hvalaskoðun hafi gengið vel eftir óveðurskafla í desember og janúar. Það sé jafnframt synd að ekki sé hægt að sigla til hvalaskoðunar þar sem líflegt hefur verið og mikið að sjá. Hnúfubakur hefur sýnt sig á Pollinum, og jafnvel nokkrir saman. Eins hefur verið hval að sjá um allan Eyjafjörð og út í fjarðarminni.