Kópavogshöfn gæti orðið nýtt aðsetur fyrir hvalaskoðunarfyrirtæki. Fyrirtækið Rib-adventures, sem var þar með útgerð sína í tilraunaskyni í sumar, hefur fengið áframhaldandi leyfi til að gera út frá höfninni næsta sumar.

„Og það eru fleiri sem sjá fram á góða aðstöðu til framtíðar og hafa lýst áhuga. Það er bara verið að skoða þetta. Góðir hlutir gerast hægt,“ segir Jón Guðlaugur Magnússon, formaður hafnarstjórnar. Það sé alveg í myndinni að taka við fleiri hvalaskoðunarbátum í nánustu framtíð þótt hann eigi síður von á að það verði strax næsta vor.

Sky Lagoon hefur aðdráttarafl

Að sögn Jóns er mikill áhugi fyrir aðstöðu í höfninni, nálægðin við Sky Lagoon skipti  þar máli en einnig standi ýmsar framkvæmdir fyrir dyrum. Laga eigi umhverfi hafnarinnar og breyta aðkomunni. Færa eigi varnargarðinn sem umlykur smábátahöfnina til vesturs og mynda meira skjól í höfninni. Þegar er komin flotbryggja út frá norðurgarðinum sem Ribbátarnir hafa notað.

„Þegar búið er að klára allt þarna í kring er þetta hugsað sem yndishöfn eða geðprýðishöfn. Fólk geti setið og horft á bátana og virkilega notið þess að vera þarna. Þetta verður mjög glæsileg höfn,“ segir Jón sem undirstrikar þó að allt sé enn á hugmyndastigi.

„Það er mikil hugur í hafnarstjórninni að bæta allt aðgengi og gera þetta svæði aðlaðandi. Þetta er nokkurra ára framkvæmd. Allar hugmyndir um hafskipahöfn eru löngu komnar út af borðinu,“ segir formaður hafnarstjórnar.