Mikið stóð til í hafnarborginni Portland í Maine miðvikudaginn 18. mars 2020. Um 150 manns hafði verið boðið, þar á meðal forseta Íslands og fleiri íslenskum gestum, til hátíðlegrar opnunar á sjávarklasanum þar í borg. Þá setti Covid 19 strik í reikninginn. Faraldurinn hóf innreið sína í Bandaríkin þessa sömu viku svo hætta þurfti við samkomuna.

„Þetta var slæm vika. Við lukum við að gera húsnæðið klárt í vikunni á undan. Enginn af gestunum frá Íslandi gat komist, og síðan var öllu lokað hjá okkur,“ segir Patrick Arnold, framkvæmdastjóri og meðstofnandi sjávarklasans í Maine.

Nú er hins vegar að birt til, smám saman, enda 70% ibúa Maine-ríkis nú bólusett þótt faraldurinn sé reyndar enn á fullri ferð þar.

„Þetta hefur verið erfitt, svo því sé svarað hreint út,“ segir Janeen Arnold, meðstofnandi, spurð um hvernig gengið hafi á Covid-tímanum. „Það kemur ekkert í staðinn fyrir bein samskipti en fólk hefur samt nýtt sér aðstöðuna, en það nýtir hana öðru vísi. Fyllsta öryggis hefur alltaf verið gætt.“

Hrifust af eldmóðnum

Sjávarklasinn í Maine var reyndar stofnaður löngu fyrir Covid, þótt fast húsnæði hafi ekki verið til staðar fyrr en 2020. Þau Patrick og Janeen ráku í Portland, og reka enn, fyrirtæki sem heitir Soli DG og sér um ýmis konar hafnarþjónustu og uppbyggingu fyrir hafnaryfirvöld í Maine.

„Árið 2013 sá fyrirtæki okkar um að byggja upp aðstöðu fyrir gámamóttöku og þá fengum við Eimskip til Maine. Ári síðar hélt Eimskip upp á aldarafmæli sitt í Hörpu, og við komum þá nokkur frá Maine. Einn af framkvæmdastjórunum hjá Eimskip hvatti okkur til þess að fara að skoða Sjávarklasann.“

  • Hús Sjávarklasans í Nýja Englandi á hafnarbakkanum í Portland í Maine. MYND/Aðsend

Þar tók Þór Sigfússon á móti þeim hjónum og þau hrifust af eldmóðnum sem ríkti í Húsi Sjávarklasans við Vesturhöfnina í Reykjavík.

„Á þessum tíma var Þór ekki kominn með nema eitthvað um tíu skrifstofur í húsinu, allt hitt var ónotað. En skyndilega vorum við komin í samband við tíu manns, tíu ný fyrirtæki, tíu nýjar hugmyndir. Þannig að það var greinilegt að þetta var ekki bara vinnustaður, heldur eitthvað annað að auki. Það var eitthvað nýtt í gangi þarna.“

Þór fór vestur

Úr varð að Þór kom nokkru síðar til Maine að fræða fólk þar um Sjávarklasann, hugmyndina að baki og hvernig slíkt gæti gengið upp þar vestra, ekki síður en hér á landi.

„Við gerðum okkur enga grein fyrir því hvað þetta myndi kosta mikla vinnu, eða hve mikið þyrfti að fjárfesta í þessu,“ segir Patrick.

„Maður sleppir samt ekki svona tækifæri. Sérstaklega þegar þú hefur komið hingað og skynjað eldmóðinn og spennuna sem liggur í loftinu,“ segir Janeen.

„Við sjáum líka þennan sama eldmóð í samfélaginu sem við höfum byggt upp í Maine, það sem byggt var upp á þessum fimm til sex árum sem við vorum starfandi áður en við fengum fast húsnæði. Þau voru tilbúin að styðja okkur í gegnum heimsfaraldurinn. Jafnvel þótt þau kæmu ekki inn á hverjum einasta degi þá héldu þau samt aðstöðunni þannig að við gátum haldið áfram starfseminni.“

Með Eimskip á staðnum

Patrick segir framtíðarplönin vera þau að halda ótrauð áfram á sömu braut.

„Með Eimskip á staðnum þá koma vörurnar þangað vikulega og fyrir íslensk fyrirtæki sem vilja koma sér fyrir á bandaríska markaðnum sjáum við það sem virkilega stórt tækifæri.“

Hann bendir á stutt sé til New York, um sex klukkutíma akstur, og vegalengdin til Boston er álíka löng og milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Þá er stutt yfir landamærin til Kanada, þar sem fimm klukkustunda akstur er til Montreal og álíka langt til Quebec-borgar.

„Það búa 60 milljón manns í innan við 600 km radíuss frá okkur.“

Þótt ekki hafi verið hægt að efna til opnunarhátíðar á síðasta ári, þá var The Hús engu að síður tekið í notkun á einni bryggjunni við höfnina í Portland. Hús sjávarklasans þar heitir sem sagt „The Hús“ upp á íslensku, enda fyrirmyndin héðan fengin.

Datt af þeim andlitið

Nokkur íslensk fyrirtæki eru þegar komin með aðstöðu í húsi sjávarklasans í Portland: North Marine Ingredients, Thor‘s Skyr og Wild Icelandic.

Af öðrum fyrirtækjum í húsinu má nefna líftæknifyrirtæki sem framleiðir húðkrem úr græðandi próteinum sem unnin eru úr humarblóði. Annað fyrirtæki framleiðir lífdísil úr notaðri matarolíu frá veitingastöðum og matvinnslufyrirtækjum í Portland. Þá eru þarna fiskeldisfyrirtæki og orkufyrirtæki auk ráðgjafarfyrirtækja af ýmsu tagi.

  • Öll hönnun og fyrirkomulag starfseminnar í "The Hús" minnir mjög á fyrirmyndina hér á landi. MYND/Aðsend

Eitt fyrsta fyrirtækið sem gekk til liðs við sjávarklasann í Portland er Bristol Seafood.

„Þetta er fiskvinnsla við höfnina í Portland sem kaupir línuveiddan þorsk og ýsu frá Íslandi og Noregi. Þegar samstarf okkar hófst fyrir svona sex árum voru hjá þeim 30 starfsmenn og hefðbundin vinnsla þar sem flakað var í höndunum,.“ segir Patrick Arnold framkvæmdastjóri.

Þeim var boðið til Íslands að skoða fiskvinnslur og fleira, þar á meðal hátæknivinnslu Vísis hf. í Grindavík.

„Þá datt af þeim andlitið,“ segir Patrick. „Nú eru þeir komnir með vinnslulínu frá Marel og FlexiCut og allt þetta, og þar starfa nú hundrað manns.“

Nú þegar hafa verið settir upp fjórir sjávarklasar í Bandaríkjunum að íslenskri fyrirmynd, og í Færeyjum er einnig kominn sjávarklasi. Þá er verið að kanna möguleikana á stofnun sjávarklasa í Noregi, á Indlandi og á Kyrrahafseyjum, og einn til viðbótar er í bígerð í Bandaríkjunum.