Hundrað stærstu sjávarútvegsfyrirtækin 2014 veltu um 100 milljörðum dollara á síðasta ári, sem eru jafngildi 11.600 milljörðum ISK. Velta 100 stærstu jókst um 1,9 milljarða dollara, 220 milljarða ISK, frá árinu á undan.
Þetta kemur fram í samantekt Undercurrent News yfir100 stærstu sjávarútvegsfyrirtæki í heiminum árið 2014.
Verðhækkun á laxi er meginskýringin á aukningu veltu. Samanlögð velta laxaframleiðenda á listanum hækkaði um 2,2 milljarða dollara (255 milljarða ISK).
Eins og á lista Undercurrent News í fyrra eru 10 stærstu félögin með meira en 2 milljarða veltu hvert (232 milljarðar ISK). Þau eru jafnframt með um þriðjung af heildinni. Þá eru 25 stærstu með meira en helming af veltu fyrirtækja á listanum, eða 57 milljarða (6.600 milljarða ISK).
Flest sjávarútvegsfyrirtæki á listanum koma frá Japan, eða 26. Í öðru sæti eru Bandaríkin með 11 fyrirtæki og Noregur í þriðja sæti með 9 fyrirtæki.
Í frétt á vef Undercurrent News er ekki upplýst hvaða fyrirtæki eru í efstu sætum listans en áhugasamir geta keypt sér aðgang að þeim upplýsingum.