Engar nákvæmar tölur eru til um hve mikið er veitt af hákarli í atvinnuskyni á ári hverju í heiminum. Eftir því sem næst verður komist má þó ætla að100 milljónir hákarla séu drepnir árlega, að því er fram kemur í frétt á vef BBC.

Vitnað er í fréttinni í skýrslu vísindamanna sem segja að veiðar á hákarli séu alltof miklar í ljósi þess meðal annars að hákarlar verði nokkuð gamlir áður en þeir fara að fjölga sér. Endurnýjun í hákarlastofnum sé hæg og því þoli þeir ekki mikla veiði.

Aðalástæðan fyrir því að hákarlar eru veiddir í stórum stíl er sú að stöðug og mikil eftirspurn er eftir hákarlauggum sem notaðir eru í sælkerasúpur í Kína og í löndum og borgum þar sem kínversk menning og áhrif eru ríkjandi.

Miklum erfiðleikum er bundið að meta hve veiðin er mikil vegna þess að undir hælinn er lagt hvort aflinn sé skráður eða ekki. Þá eru uggarnir gjarnan skornir af hákarlinum úti sjó og skrokknum varpað fyrir borð. Vísindamenn telja að veiðin árið 2010 hafa verið einhversstaðar á bilinu 63 til 273 milljónir fiska.