Í nýútkominni ævisögu Jóns Magnússonar skipstjóra og útgerðarmanns á Patreksfirði, sem Jóhann Guðni Reynisson skráði, segir Jón frá eftirminnilegum hákarlaveiðitúr sem hann fór í ásamt áhöfn sinni á Vestra BA til Austur-Grænlands um mánaðamótin maí/júní árið 1972. Þar segir að líklega hafi Jón sett þar Íslandsmet í hákarlaveiði en alls náðust eitt hundrað hákarlar á einum sólarhring.
Áður en lagt var af stað var sett upp 40 króka lína og keðjur í taumunum. Byrjað var að leggja stubb með nokkrum krókum og þá komu strax tveir hákarlar á. Síðan fór að bera á því að aðeins kæmu upp hausar af hákörlum sem benti til þess að hákarlarnir væru farnir að éta hver annan þarna niðri.
„Ég fékk þarna á þessari legu einhverja 18 hákarla og svar var bara lagst og það var blindaþoka og blankalogn. Ég dró 20 króka og fékk 16 hákarla á það og svona hélt þetta áfram. Línan var látin liggja í tvo til þrjá tíma og svo var dregið,“ segir Jón.
Hver hákarl var 4-5 metra langur og nokkur hundruð kíló. Ekki voru ílát undir lifur nema úr 50 hákörlum þannig að restin var sett heil á dekkið. Alls voru þetta hundrað hákarlar eins og áður sagði.
Nánar segir frá þessum sögulega hákarlatúr í ævisögu Jóns og kaflinn er einnig birtur í jólablaði Fiskifrétta.