Á næstu fimm árum munu danskar hafnir stækka sem aldrei fyrr. Áætlað er að hafnirnar verji um 5 milljörðum DKK eða rúmum 100 milljörðum ISK í uppbyggingu, að því er fram kemur í frétt á tv2.
Danska hafnarsambandið hefur tekið saman skýrslu um áform 24 stærstu hafna í Danmörk um uppbyggingu. Þar skipa hafnir á Norður-Jótlandi mikinn sess en töluverð umræða hefur verið um hnignun þeirra að undanförnu.
,,Þessi skýrsla kveður niður sögusagnir um að danskar hafnir séu að deyja og að byggðin sé farin að þrengja að þeim. Hafnirnar dafna þvert á móti, þær þenjast út og bjóða upp á ný atvinnusvæði,“ er haft eftir talsmanni hafnarsambandsins.
Hafnarsvæðið í Fredrikshavn á Norður-Jótlandi verður til dæmis stækkað um 130 hektara en höfnin er 170 hektarar fyrir. Höfnin í Hirtshals er nú 110 hektarar að stærð en hún verður stækkuð um 106 hektara.