Það liggur fyrir að nýliðin humarvertíð er sú lélegasta frá upphafi veiða. Ekkert í gögnum vísindamanna Hafrannsóknastofnunar bendir til að humarveiði á næstu árum muni glæðast.

Þegar síðasta fiskveiðiár rann sitt skeið á enda um mánaðarmótin ágúst – september lá það fyrir að þeir níu bátar sem stunduðu veiðarnar höfðu náð að veiða 820 tonn af heilum humri. Útgefinn humarkvóti fiskveiðiársins voru hins vegar 1.150 tonn. Að teknu tilliti til sérstakra úthlutana og ýmsum tilfærslum milli ára má lesa á vef Fiskistofu að 217 tonn af slitnum humri voru færð yfir á nýtt fiskveiðiár, sem í heilum humri þýðir að rúmlega 700 tonna veiði stendur eftir við upphaf þessa fiskveiðiárs. Þar af hefur náðst að veiða um 45 tonn í september og það sem af er október.

Þessi niðurstaða er sú daprasta sem sést hefur síðan humarveiðar við landið hófust að einhverju marki. Þetta kemur þó hvorki sjómönnum né vísindamönnum á óvart, enda hafa verið blikur á lofti um nokkurra ára skeið um að humarveiði gæti farið hratt minnkandi.

Veiðibann ekki útilokað

Undanfarin ár hafa humarveiðar við Ísland einkennst af minnkandi afla. Nýliðunarbrestur hefur verið viðvarandi síðan 2005 og rannsóknir benda til þess að nýliðun í humarstofninum verði áfram með lakasta móti. Þetta kom meðal annars fram í erindi Jónasar Páls Jónassonar, fiskifræðings á Hafrannsóknastofnun, sem bar yfirskriftina Veiðar á leturhumri - sögulegt yfirlit aflabragða og stofnþróunar, og var flutt á málstofu Hafrannsóknastofnunar þegar stutt var liðið vertíðar í apríl síðastliðnum.

Erindið byggði á hans rannsóknum og forvera hans í starfi Hrafnkels Eiríkssonar. Þá var hans mat að ekki væri hægt að útiloka bann við humarveiðum  – svo alvarleg er staðan. Það væri í raun aðeins spurning um hvenær það gerist. Dregið hafi verið úr veiðum jafnt og þétt, en spurning hvort Hafrannsóknastofnun myndi í framhaldinu ráðleggja litlar eða engar veiðar. Sú ákvörðun myndi á endanum snúast um hvaða aðferðafræði væri hagfelldast að beita. Hafa beri hugfast að það eru alltaf verðmætar upplýsingar sem fást með veiðum.

Niðurstöðunnar um næstu skref verður þó að bíða enn um sinn. Hafrannsóknastofnun mun framvegis veita ráðgjöf fyrir humar í upphafi árs en ekki í júní, eins og áður. Sú ráðgjöf gildir þá frá 15. mars og út október.

„Ástæðan er breytt aðferðafræði við stofnmat humars en nú fer stofnmæling fram í júní en úrvinnsla gagna er mun tímafrekari en áður var. Ráðgjöf humars mun þá byggjast á nýjustu gögnum og koma tímalega fyrir upphaf vertíðar sem hefst í mars,“ eins og Hafrannsóknastofnun greindi frá stuttu áður en ráðgjöfin fyrir yfirstandandi fiskveiðiár var kynnt í júní.

Staðan mjög alvarleg

Aðspurður um niðurstöðu vertíðarinnar segir Jónas Páll það rétt að um verstu niðurstöðu humarvertíðar við Ísland sé að ræða.

„Þetta er í samhengi við það sem við höfum séð varðandi nýliðun síðustu ára. Staða stofnsins er mjög alvarleg,“ segir Jónas Páll.

Nýliðun humars hefur minnkað síðan 2005, eins og áður sagði, og hefur aldrei verið metin eins lítil og nú. Viðmiðunarstofn hefur minnkað hratt undanfarin ár og hefur ekki verið lægri frá 1980. Hlutfall stórhumars er jafnframt hátt en hefur minnkað frá 2009 og virðist því veiðin mestöll koma úr eldri árgöngum, en humar er hægvaxta og nær um 20 ára aldri.

„Við höfum ekki séð í okkar gögnum vísbendingar um góða nýliðun. Einnig að ef við sjáum stóran árgang eða árganga koma inn, þá tekur það nokkur ár fyrir stofninn að braggast,“ segir Jónas Páll.

Byrjað á botninum

Hafrannsóknastofnun fór í árlegt humarrall í 50 ár, þar sem dregið var á föstum togstöðvum á helstu humarbleyðunum. Síðustu þrjú ár hafa í staðinn verið taldar humarholur með sérstakri aðferð. Þetta er ráðlagt vinnulag frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) og er notað alls staðar annars staðar. Fyrstu niðurstöðurnar eru að 0,09 holur séu á fermetra botns á veiðislóð – eða um 540 milljón holur á um 6.000 ferkílómetrum þegar öll þekkt mið eru mæld og vegin saman. Veiðislóðin stækkar þó jafnt og þétt í kjölfar humarleitar á nýrri slóð. Þéttleiki humars við Írland, Skotland og víðar er mun meiri en hér. Íslenski humarinn er hins vegar stórvaxnari.

„Við sáum enga breytingu milli ára í holutalningum að sumarlagi árin 2016 og 2017,“ segir Jónas Páll en Hafrannsóknastofnun kynnir niðurstöður nýjustu holutalninga á fundi með hagsmunaaðilum í nóvember eða desember.

Um þessa nýju aðferðafræði segir Jónas Páll:

„Líklegast höfum við byrjað á botninum varðandi mat okkar á þéttleika humarholna á veiðislóð, en þéttleiki hér er lágur miðað við önnur svæði.“

Hafrannsóknastofnun fór í humarholuleiðangur í júní, og eins söfnun á humarlirfum sem er mjög krefjandi verkefni. Fjölgeislagögn eru nýtt til að afmarka betur veiðislóðina, sem mun nýtast sjómönnum jafnt sem til rannsókna.

Greinin birtist í Fiskifréttum 18. október sl.