Valur ÍS veiddi humar í rækjuvörpu í Ísafjarðardjúpi síðastliðinn mánudag, 26. nóvember. Í frétt á vef Hafrannsóknastofnunar segir að það verði að teljast til tíðinda, að því gefnu að hann hafi ekki borist með óeðlilegum hætti í Djúpið. Vitað sé að í tvö skipti hafi humri verið sleppt í Djúpinu, fyrir um fimmtíu árum síðan og fyrir u.þ.b. fimmtán árum. Sá humar sem nú veiddist kom í vörpu við rækjuveiðar fram undan innanverðri Óshlíð. Humarinn var 56 mm að skjaldarlengd og vó 106 grömm.
Í síðustu viku veiddist stærsti leturhumar sem sögur fara af á Íslandsmiðum, eins og fram hefur komið í fréttum. Hann var 88 mm að skjaldarlengd, en heildarlengd dýrsins var hálfur metri og vó það 490 grömm. Humarinn var veiddur í humartroll á Jóni á Hofi ÁR út af Selvogi.
Á vef Hafró segir að eldra stærðarmet sé humar sem var 85 mm að skjaldarlengd og veiddist árið 2008 norður af Eldey. Að sögn Hrafnkels Eiríkssonar fiskifræðings hefur síðan árið 2007 mikið orðið vart við stóran humar, sérstaklega við suðvestanvert landið. Hrafnkell tengir þetta minni sókn og hugsanlega hækkandi hitastigi sjávar við landið, en sjávarhiti hefur verið hár allt frá árinu 1997. Humarinn er langlíf tegund og er stóri humarinn talinn að minnsta kosti vera 20 ára. Stærsti leturhumar sem getið hefur verið um var 92 mm og veiddist hann við Portúgal.