Í nýlegu hefti vísindarits Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) er grein eftir fiskifræðingana Björn Björnsson, Jón Sólmundsson og Ólaf Karvel Pálsson, þar sem í yfirskriftinni er spurt hvort viðvarandi lokanir fyrir línuveiðum á svæðum næst landi geti dregið úr veiði á undirmálsfiski.

Í viðtali við Morgunblaðið bendir einn greinarhöfunda, Björn Björnsson, á að samfara auknum línuveiðum hér við land á síðustu árum hafi hlutfall undirmálsþorsks aukist og slíkt stuðli ekki að góðri nýtingu á stofninum.

„Það virðist því skynsamlegt að loka ákveðnum hluta af grunnslóðinni fyrir línubátum . Við tökum ekki afstöðu til þess í greininni hvar eigi að draga útlínur slíkra bannsvæða,“ segir Björn og bætir við að áður en til þessa kæmi þyrfti Hafrannsóknastofnun að koma fram með ákveðnar tillögur og stjórnvöld að taka afstöðu til þeirra, væntanlega í samráði við hagsmunaaðila.

Fram kemur að um þriðjungur þorskaflans sé tekinn á línu og fari veiðarnar aðallega fram á svæðinu frá Breiðafirði norður um til Austfjarða.