Huginn VE heldur fyrstur skipa íslenska uppsjávarflotans til makrílleitar næstkomandi sunnudag. Guðmundur Huginn Guðmundsson skipstjóri var staddur í Póllandi þegar náðist í hann og sagðist vera búinn að ræsa út mannskapinn og haldið yrði til makrílleitar á sunnudag.
Huginn hefur jafnan verið með fyrri skipum í makrílinn undanfarnar vertíðir. Hann var þó fjarri góðu gamni síðastliðið sumar þegar skipinu var breytt í skipasmíðastöð í Póllandi. Útgerðafélagið leigði þá Jón Kjartansson SU til Vestmannaeyja frá Eskju á Eskifirði til þess að veiða kolmunna og makríl meðan á breytingunni á Huginn stóð.
Frysting og sjókæling
Huginn er frystiskip smíðað árið 2001 í Chile. Í Póllandi var það var lengt um 7,2 metra og stækkaði lestarrýmið við það um 600 rúmmetra. Skipið verður betur útbúið til að sjókæla aflann og landa honum jafnt ferskum sem frystum.
„Framhaldið ræðst svo af kvótanum. Það er ekki ennþá búið að gefa út kvóta og ég vona bara að ég fái veiðileyfi. Við höfum reyndar engar spurnir haft af makríl ennþá svo við förum út og leitum hans,“ sagði Guðmundur þegar rætt var við hann síðastliðinn þriðjudag.
Ný ráðgjöf
Eins og Fiskifréttir greindu frá um miðjan síðasta mánuð ákvað Alþjóðlega hafrannsóknaráðið, ICES, að auka ráðgjöf sína um makrílveiðar á Norðaustur-Atlantshafi fyrir vertíðina úr 318 þúsund tonnum upp í 770 þúsund tonn.
Norsk stjórnvöld fóru fram á það að ráðgjöfin yrði aukin eftir að breytt aðferðarfræði við útreikning á stofnstærð leiddi í ljós að stofnstærðin hafði verið vanmetin í fyrra mati.
Eftir breytinguna hljóðar stofnstærðarmatið upp á 4,2 milljónir tonna í stað 2,35 milljóna tonna.
Þetta þýðir að veiðar Íslendinga í tegundinni verða mun meiri en lengi var útlit fyrir, eða mjög nálægt þeim 130.000 tonnum sem komu á land í fyrra. Litið fimm ár aftur í tímann hafa makrílveiðar Íslendinga verið á bilinu 130.000 til 160.000 tonn. Mest kom á land sumarið 2017.