Í lok nóvember á síðasta ári stóð Hafrannsóknastofnun fyrir rannsóknaleiðangri á Bjarna Sæmundssyni á Látragrunn, sem er helsta hrygningarsvæði steinbíts.
Markmið leiðangursins voru að kanna; hvort hægt væri að meta þéttleika hrognaklasa steinbíts með neðansjávarmyndavél eða sæbjúgnaplóg; athuga þéttleika hrygningarsteinbíts á Látragrunni með botnvörpu; og merkja steinbít með rafeinda- og slöngumerkjum.
Tekin voru sjö snið með neðansjávarmyndavélinni, öll að degi til, og voru þau samtals 19 km að lengd. Ekki sáust neinir hrognaklasar með myndavélinni, en þeir steinbítar sem sáust með henni voru flestir í gjótum sem hugsanlega bendir til að steinbítur hrygni í gjótum.
Sjá nánar um leiðangurinn í grein sem Ásgeirs Gunnarssonar sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun ritar í nýjustu Fiskifréttum.