Hlaupvatnið vegna eldgossins í Eyjafjallajökli virðist hafa borist út á meira dýpi í stað þess að leggjast grunnt vestur með landi. Þetta bendir til þess að viðkvæmum hrygningarstöðvum stafi ekki hætta af hlaupvatninu enn sem komið er.
Svo segir í frétt á vef Hafrannsóknastofnunar. Dagana 15.-18. apríl s.l. var farið í leiðangur á r/s Bjarna Sæmundssyni með suðurströnd landsins austur fyrir Markarfljót. Tilgangurinn var að kanna áhrif flóða af völdum goss í Eyjafjallajökli á hrygningarslóðir sunnanlands. Gerðar voru athuganir á nokkrum sniðum út frá landinu.
Er komið var austur fyrir Markarfljót sást að gruggugan sjó lagði til austurs. Það var í samræmi við það sem sást úr flugvél Landhelgisgæslunnar sem flaug yfir svæðið stuttu áður. Selta sjávar á þessum slóðum var há, sem bendir til þess að tiltölulega lítið ferskvatn hafi borið þetta grugg til sjávar. Mest af ferskvatnsblönduðum sjó fannst um 20 sjómílur vestur af Heimaey.
Síðan segir í frétt Hafró: ,,Ætla má að þetta ferskvatn eigi rætur að rekja til fyrsta og stærsta hlaupsins. Af seltudreifingunni má leiða líkum að því að hlaupvatnið hafi borist út á meira dýpi í stað þess að leggjast grunnt vestur með landi. Þetta bendir til þess að viðkvæmum hrygningarstöðvum stafi ekki hætta af hlaupvatninu enn sem komið er. Frekari greining sýna mun verða gerð fljótlega og mun þá gefa fyllri mynd.”
Sýni voru tekin af svifþörungum, átu, fiskeggjum og lirfum. Þau sýndu að vorkoma gróðurs var hafin og hrygning og klak var í fullum gangi. Magn svifþörunga var eins og búast má við miðað við árstíma og aðstæður. Dýrasvif var byrjað að vaxa. Mikið sást af ljósátueggjum, loðnulirfum og fiskeggjum. Hrygning rauðátu var rétt að hefjast í samræmi við árstíma. Í háfsýni teknu undan ósum Markarfljóts fundust merki frá lífríki ferskvatns svo sem fíngert set og skordýralirfur.
Á næstunni verða gerðar tilraunir í Tilraunastöð Hafrannsóknastofnunarinnar að Stað í Grindavík til að kanna áhrif hlaupvatns á afdrif eggja og lirfa af svæðinu, sem m.a. var safnað í leiðangrinum.
Nú er mikið magn gosefna að berast í sjó úr lofti og því er áfram vert að fylgjast með ástandi svæðisins.
Hafrannsóknastofnunin mun á næstu vikum fara til endurtekinnar sýnatöku á gosslóð svo fyllri mynd fáist af þróun mála. Sjá frétt og skýringarmyndir á vef Hafró, HÉR