Hið árlega hrygningarstopp hefst 1. apríl, þ.e. daginn fyrir skírdag, en þá lokast svæði með suðurströndinni mjótt belti vestur um og norður að Skorarvita.
Fram kemur á vef LS að hrygningarstoppið nú sé hið 24. í samfelldri röð þess, en því hafi fyrst verið komið á árið 1992.
Tilgangur þessarar veiðistöðvunar er að gefa þorskinum góðan frið við hrygninguna, en með því telja vísindamenn Hafrannsóknastofnunar að auknar líkur séu á enn stærri þorskstofni.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra setur reglur um friðun hrygningarþorsks og skarkola sem stöðva veiðar á ákveðnum svæðum á ákveðnum tímabilum í apríl. Sjá má það nánar á vef Fiskistofu.