Helstu fiskstofnar sem norsk skip nýta hafa vaxið kröftuglega síðustu 25 árin og eru nú í mjög góðu ástandi. Á sama tíma hefur aflinn verið nokkuð stöðugur, aflaverðmæti aukist og sjávarútvegurinn skilað meiri hagnaði, að því er fram kemur á vef norska sjávarútvegsráðuneytisins.
Þar er vitnað í nýja skýrslu um efnahagslegar og líffræðilegar lykiltölur úr norskum fiskveiðum árið 2010. Í skýrslunni er sýnd þróun hrygningarstofna, veiða, aflaverðmætis og hagnaðar síðustu 25 ára. Talsmenn norska sjávarútvegsráðuneytisins segja að þessar tölur beri vott um trausta stjórn fiskveiða samhliða hagstæðum ytri skilyrðum.
Samanlagt hafa hrygningarstofnar uppsjávarfiska sem Norðmenn veiða úr þrefaldast á síðustu 25 árum. Hrygningarstofnar helstu botnfiska hafa meira en tvöfaldast á sama tíma. Fyrst og fremst hafa þorskstofninn og norsk-íslenska síldin verið drifkrafturinn í þessari þróun.
Í skýrslunni er bent á að samhliða betri stjórn fiskveiða og sjálfbærri nýtingu þá hafi aflaverðmæti aukist einkum í uppsjávartegundum. Aflaverðmæti uppsjávartegunda var um 2 milljarðar norskra króna árið 1985 (jafngildi 41 milljarðs ISK) en var komið í sex milljarða árið 2010 (jafngildi 125 milljarða ISK).
Einnig kemur fram að norskum sjómönnum og fiskiskipum hafi fækkað síðustu árin og að norski fiskiskipaflotinn sé hagkvæmur og þurfi ekki lengur á styrkjum að halda. Árið 1985 runnu 1,2 milljarðar norskra króna í styrki til útgerðarinnar (25 milljarðar íslenskra króna) en í fyrra námu styrkirnir aðeins 60 milljónum norskra króna.