„Við myndum þurfa að stökkva til mjög hratt ef fjármagn fæst, því það má búast við að loðnan fari að hrygna núna í mars og apríl,“ segir Birkir Bárðarson, fiskifræðingur á Hafró.
Birkir var leiðangursstjóri í loðnuleitarleiðöngrum Hafró nú í janúar og febrúar. Alls var haldið í þrisvar sinnum í loðnuleit en niðurstöðurnar gefa ekkert tilefni til þess að veiðar verði ráðlagðar í ár.
„Auðvitað getur eitthvað óvænt gerst, óvæntir atburðir á borð við vestangöngur eða eitthvað slíkt. En það sem við erum búnir að sjá hingað til gefur okkur ekki miklar vonir.“
Birkir segir að leiðangursskýrsla og niðurstöður úr síðasta leiðangrinum verði gefnar út á næstu dögum.
Erfitt að mæla
Í byrjun febrúar urðu leiðangursmenn varir við allnokkuð af kynþroska loðnu sem virtist vera að ganga upp á grunninn fyrir norðan land. Birkir segir að þetta sé ekki óþekkt því sum undanfarin ár hafi orðið vart við að hluti loðnunnar hafi gengið upp á grunninn og hrygnt fyrir norðan.
„Það hefur samt verið í frekar litlum mæli, að talið er, þangað til nýverið. Við teljum að undanfarin ár hafi hrygning þar hugsanlega verið að aukast, en við höfum þó ekki getað lagt mat á það hversu mikið er að hrygna á hverri hrygningarslóð.“
Einmitt þetta er meðal þess sem Birkir og félagara hafa hug á að skoða betur, fáist til þess viðbótarfjármagn frá ráðuneytinu.
„Við erum að óska sérstaklega eftir fjármagni til að geta sinnt betur eftirfylgni við stofnmatið, til að geta fylgt vetrarmælingunni betur eftir og fylgst með því sem gerist í tengslum við gönguhegðun og framvindu hrygningargöngunnar, hvar hún er að hrygna og jafnframt hvort eitthvað nýtt sé að gerast,“ segir hann.
„Málið er að það er erfitt að mæla loðnuna þegar hún er komin að hrygningu. Hún er að ganga mjög grunnt og hún gengur hratt þannig að þetta eru erfiðar mælingaaðstæður. Við erum hins vegar líka að horfa til þess að skoða magn og dreifingu loðnuseiða eftir hrygninguna. Það ætlum við að reyna að nota sem vísbendingu um umfang og dreifingu hrygningar. Þetta yrðu eftirá mælikvarðar.“
Fréttir af miðunum
Fáist þetta viðbótarfjármagn ekki munu vísindamenn stofnunarinnar engu að síður fylgjast með eftir megni.
„Við reynum náttúrlega að fylgjast með í gegnum fréttir af miðunum. En staðan á Hafró er samt þannig að við erum búnir með það sem ætlað var til vetrarmælinga á loðnu, og við erum búnir að gera gott betur en gert var ráð fyrir í okkar plönum þar.“
Áherslan í loðnurannsóknum beinist ekki eingöngu að hrygningunni fyrir norðan, enda margt óljóst í því sem er að gerast hjá loðnunni þessi misserin.
„Við höfum verið að safna sýnum hringinn í kringum landið þannig að við fáum einhverja mynd á það hvernig magnið af lirfum dreifist. Svo aldursgreinum við þær með því að lesa kvarnir og dægurhringi þannig að við vitum hversu gamlar þær eru í dögum. Svo ætlum við að reyna að nota reklíkön til að reyna að rekja þær til upprunans, það er að segja frá hvaða hrygningarsvæði hver lirfa kemur,“ segir Birkir.
Stóra myndin
„Ef við horfum svo á stóru myndina þá höfum við verið að sjá hana í haustleiðöngrum okkar undanfarin ár færa sig vestar og norðar á sumrin og haustin, eiginlega allt frá aldamótum. Um leið höfum við verið að sjá hana koma seinna núna síðustu ár inn á svæðin hér á íslenska landgrunninu í hrygningargöngunni, og þá spyr maður sig hvaða áhrif þessi færsla á fæðugöngunni hefur á heimkomuna. Það er mjög líklega samhengi þarna á milli, að hún sé að skila sér seinna inn. Þá fer jafnvel að verða spurning hvenær kemur að því að hún hefur hreinlega ekki orku eða tíma til að fara suður. Þannig að það má velta fyrir sér hvort það sé þetta sem veldur því að hún í auknum mæli núna sé farin að hrygna fyrir norðan.“
Hann segir að frá aldamótum hafi mælst hlýnun í hafi á svæðunum fyrir norðan Ísland.
„Við höfum líka sé minni útbreiðslu hafíss á þessum svæðum, þannig að það má ætla að loðnan sé að færa sig í takt við umhverfið bæði vestar og norðar.“
Sú spurning vaknar hvaða breytingar verði á ferðum loðnunnar ef hún er tekin að hrygna í auknum mæli fyrir norðan land, en síður á hefðbundnum hrygningarslóðum sunnan til.
Óviss örlög seiðanna
Birkir segir að búast megi við því að örlög þeirra seiða sem klekjast fyrir norðan verði nokkuð frábrugðin því sem hingað til hefur þekkst.
„Það má búast við því að þau seiði sem klekjast þar, jafnvel þótt hrygnt væri á sama tíma og verið hefur, muni bæði út af lægra hitastigi klekjast seinna og svo er líklegt að þau muni reka á önnur uppeldissvæði. Ef maður horfir á strandstrauminn við Ísland þá má leiða líkur að því að þau berist eitthvert austur eftir, til að byrja með alla vega.“
Þetta sé eitthvað sem verið sé að setja upp í reklíkön til að geta spáð fyrir um hvað kunni að gerast.
„Við erum að reyna að kortleggja þetta,“ segir Birkir.
Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, kom inn einnig á þær breytingar sem hafa verið að sjást undanfarin ár í erindi sem hann hélt hjá Þekkingarsetri Vestmannaeyja í síðustu viku. Hann sagði mikla óvissu bundna við hrygninguna fyrir norðan land. Óvíst sé hvort sú hrygning muni skila sér svo nokkru nemi í nýliðun.
„Við vitum að stofninum er náttúrlegt að hrygna fyrir sunnan land, svo fer hann norður fyrir og þar alast þær upp. En hvert fer hún þá? Verður eitthvað úr þeim þegar þær reka austur eftir? Þetta er stóra spurningin.“
Hann segir það áhyggjuefni ef hátt hlutfall af stofninum fer að hrygna fyrir norðan.