Hrönn Egilsdóttir, doktorsnemi við Háskóla Íslands, hlaut í dag Hvatningarverðlaun Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, fyrir rannsóknir sínar á áhrifum súrnunar sjávar á kalkmyndandi lífríki í hafinu við Ísland. Hrönn er frumkvöðull í rannsóknum af þessu tagi við strendur Íslands og hefur unnið ötullega að því að gera grein fyrir alvöru málsins hér á landi.

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir ástæðu til að heiðra Hrönn fyrir starf sitt og hvetja hana áfram á sömu braut. Rannsóknir hennar veki fólk til umhugsunar um mikilvægi þess að ganga vel um auðlindina sem hafið er, að hugsa þurfi um umhverfismál út frá hnattrænu samhengi og að efnahagsmál og umhverfismál verða ekki aðskilin. Góð og víðtæk þekking á ástandi sjávar væri mikilvæg fyrir sjávarútveg. Íslenskt samfélag þyrfti að setja kraft í hafrannsóknir ef ætlunin væri að byggja áfram hagkerfi Íslands á sjálfbærum veiðum.

Sjá nánar á vef SFS