Hrollaugur, félag smábátaeigenda á Höfn í Hornafirði, hefur sagt sig úr Landssambandi smábátaeigenda (LS). Vigfús Ásbjörnsson, formaður Hrollaugs, hefur jafnframt sagt sig úr stjórn LS.

Félagsmenn í Hrollaugi hafa verið andvígir nýju fyrirkomulagi strandveiða og jafnframt ósáttir við afstöðu LS til hins breytta fyrirkomulags.

Axel Helgason, formaður LS, segir í grein á vef LS það mikil vonbrigði að Hrollaugur sjái ekki samleið með baráttumálum LS.

„Sundrung í röðum smábátaeigenda hefur á stundum reynst félaginu erfið,“ segir Axel Helgason, formaður LS á vef samtakanna. „Það hefur enda verið markmið andstæðinga smábátaútgerðar allt frá stofnun LS að gera sitt besta til að efna til slíks óvinafagnaðar. Staðreyndin er sú að þegar smábátaeigendur hafa staðið saman sem einn maður hafa þeir landað sínum stærstu sigrum.“