Börkur NK kom með 700 tonn af loðnu til Helguvíkur í gær og hófst þá hrognakreisting. Það er síðan Saltver ehf í Reykjanesbæ sem annast pökkun og frystingu hrognanna. Kreistingin gekk vel og átti frysting aðhefjast í dag, segir á vef Síldarvinnslunnar.

Eggert Ólafur Einarsson, verksmiðjustjóri í Helguvík, sagði að vinnsla í fiskimjölsverksmiðjunni gengi vel en nú hefur verið tekið á móti 5.000 tonnum þar. „Það eru stífir dagar framundan eins og ávallt á meðan á hrognatöku stendur,“ sagði Eggert.

Vilhelm Þorsteinsson EA var væntanlegur til Helguvíkur í dag með 2.000 tonn sem væntanlega verða kreist. Þá er Bjarni Ólafsson AK á leið til Neskaupstaðar með fullfermi af hrognaloðnu. Polar Amaroq er að landa fullfermi á Seyðisfirði og Beitir NK er að landa í Neskaupstað.