Talsverðar veiðar eru á steinbíti á klaktíma hans, þegar eggjaklasarnir liggja óvarðir á botninum fyrir botnvörpuveiðum. Hafrannsóknastofnun hefur áhyggjur af þessu og vill aukna friðun.

,,Tæplega fjórðungur af steinbítsafla í botnvörpu er tekinn á Látragrunni og nærliggjandi svæðum á klaktíma. Væntanlega eru ekki margir hrognaklasar sem þola að trollað sé yfir þá,” segir Ásgeir Gunnarsson sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun í samtali við Fiskifréttir.

Höskuldur Björnsson á Hafrannsóknastofnun bendir á að nýliðun síðari ára hafi verið talsvert lélegri en hún var mörg ár þar á undan. Ekki sé útilokað að botnvörpuveiðar hafi þar áhrif en steinbítsveiðar á hrygningartíma með botnvörpu jukust mikið rétt fyrir síðustu aldamót. Auk þess hafi veiðar á steinbít farið um 30% fram úr ráðgjöf Hafró á undanförnum árum m.a  vegna tegundatilfærslna.

Pétur Birgisson skipstjóri á togaranum Stefni ÍS telur að fleira en trollveiðar hafi áhrif á viðgang steinbítsins og nefnir breytt lífríki í því sambandi.

Sjá nánar viðtöl við þá Ásgeir, Höskuld og Pétur í síðustu Fiskifréttum.