Eftir að sýking í eldislaxi hafði nánast þurrkað út laxeldi í Færeyjum á árunum 2003 og 2004 hefur greinin vaxið á ný og náð fyrri hæðum, að því er fram kemur á fréttavefnum seafoodsource.com.

Þegar sýkingin geisaði hrapaði laxeldi í Færeyjum úr 40-50 þúsund tonna ársframleiðslu niður í um 10 þúsund tonn.

Eftir að sýkingin kom upp tóku stjórnvöld og eldisfyrirtækin höndum saman um að setja nýjar og strangar reglur til að koma í veg fyrir stórfelld áföll af þessu tagi í framtíðinni. Meðal annars voru settar reglur um þéttleika lax í sjókvíum. Eldisstöðvarnar eru skyldaðar til að hafa þrjú eldissvæði, eitt fyrir ungviðið, eitt fyrir eldislax sem verið er að ala í sláturstærð og eitt sem er algerlega autt. Eftir að svæði hefur staðið autt í 3 mánuði er hægt að setja lax í það aftur.

Nú er laxeldi Færeyinga komið í um 50 þúsund tonn á ári að nýju. Þar sem takmarkað svæði er til ráðstöfunar undir laxeldi er ekki við því að búast að framleiðslan geti aukist mikið meir. Þó er því spáð að framleiðslan nái 60 þúsund tonnum á næsta ári og menn óttast að með því sé verið að tefla á tæpasta vað.