Snorri Karl Birgisson, MS frá Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, hefur unnið að rannsókn sem hafði það að markmiði að einfalda aðgreiningu hringorms frá fiskholdi. Lokamarkmiðið er að byggja grunn fyrir þróun á sjálfvirkri tækni til að greina hringorm í fiskflaki.
Fjallað er um þetta í Tímariti Háskóla Íslands, http://vefbirting.oddi.is/HI/haskolamagasin2018/2/ .
Eitt helsta vandamál sem fyrirtæki í vinnslu bolfisks glíma við tengist hringormi. Snorri Karl segir þá lengi hafa verið mikla áskorun í vinnslu fisks og í gæða-, sölu- og markaðsmálum á afurðum úr fiski. Greining og hreinsun hringorma úr fiskflaki er enda mjög kostnaðarsöm og krefjandi vinna.“
Í rannsókninni bar Snorri Karl saman samsetningu hringorma og þorskvöðva til að kanna hvort efnasamsetning á þessu tvennu væri ólík sem gæti auðveldað að greina hringormana frá fiskvöðvanum.
„Einnig rannsakaði ég lifun og þol hringorma við frystingu þar sem tekið var tillit til stærðar og líkamsbyggingar þeirra.“
Niðurstöður Snorra Karls benda til þess að hringormar séu frábrugðnir þorskvöðvanum hvað efnasamsetningu varðar.
„Hamur hringorma er samsettur úr þykkum vegg sem gerir hringorminn ólíkan efnasamsetningu þorsks, sem er jákvæð vísbending um að finna megi tæknilega lausn við greiningu á honum í fiskflaki. Takist það getum við komið fram með lausnir sem leiða til umtalsverðs sparnaðar í fiskvinnslu ásamt því að auka öryggi afurðanna mjög mikið.“